spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Sannfærandi KR-sigur, Stjarnan skítféll á prófinu

Umfjöllun: Sannfærandi KR-sigur, Stjarnan skítféll á prófinu

 
Það var sannkallaður stórleikur á dagskrá í Iceland Express deild karla í kvöld þegar úrslitalið síðasta árs, Stjarnan og KR, mættust í Ásgarði. Bæði lið höfðu byrjað mótið vel, Stjarnan unnið alla sína leiki en Vesturbæingar tapað einum. Áhorfendur voru því vongóðir, enda benti allt til hörkuleiks.
Fyrsti fjórðungur var þó allt annað en spennandi. Eftir að Finnur Magnússon skoraði fyrstu þrjú stig leiksins fyrir gestina tóku Garðbæingar öll völd á vellinum. Stjörnumenn voru miklu beittari í sínum aðgerðum, spiluðu frábæra vörn og völdu góð skot í sókninni. KR-ingar vissu hreinlega ekki hvaðan á sig stóð veðrið og fljótlega voru þeir Emil Jóhannsson og Finnur Magnússon komnir með þrjár villur hvor. Stjörnumenn leiddu með 14 stigum eftir fyrsta leikhluta, 32-18, og KR-ingar þurftu virkilega að girða sig í brók.
 
Annar leikhluti var fullkomin andstæða þess fyrsta. KR-ingar komu dýrvitlausir til leiks og þögguðu rækilega í öllum sem höfðu afskrifað þá eftir fyrsta fjórðung. Allt það sem Stjörnumenn höfðu gert vel í fyrsta leikhluta byrjuðu þeir að gera hreint hörmulega. Vörnin var hriplek og sóknin enn verri. KR-ingar virtust hins vegar hafa fengið einhvers konar uppljómun á milli leikhluta því þeirra leikur batnaði til mikilla muna og barátta svarthvítra miklu meiri en heimamanna. Fór svo að KR vann annan leikhluta 23-9 og leiddi því í hálfleik með einu stigi, 41-42. Leikur Stjörnunnar í molum en KR-ingar leikandi á als oddi.
 
Sama var uppi á teningnum í þriðja leikhluta. KR-ingar spiluðu áfram virkilega sterka 3-2 svæðisvörn sem Stjörnunni gekk mjög illa að leysa. Svarthvítir börðust eins og ljón um hvern bolta á meðan algert andleysi einkenndi leik heimamanna. Eftir þrjá leikhluta var staðan orðin 56-68 fyrir KR, og ljóst að eitthvað mikið þyrfti að gerast hjá heimamönnum til þess að knýja fram sigur.
 
Til að gera langa sögu stutta tókst það ekki. Þrátt fyrir ágætar tilraunir Stjörnunnar sigldi KR sigrinum örugglega í höfn og landaði afar sanngjörnum 8 stiga sigri, 76-84.
 
Stigahæstur heimamanna í leiknum var Justin Shouse með 22 stig, en hann hefur þó oft spilað betur, eins og reyndar allt Stjörnuliðið. Jovan Zdravevski meiddist í fyrsta leikhluta og munaði um minna! Hjá gestunum var Ed Horton með 21 stig og David Tairu var með 16 stig og 9 fráköst. Þá stóðu táningarnir í liði KR, Kristófer Acox og Martin Hermannsson sannarlega fyrir sínu, en Kristófer stóð sig sérlega vel í vörn gestanna.
 
Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum, með 6 stig eftir 4 leiki, en í kvöld kom fyrsta tap Stjörnumanna. Þetta var einnig fyrsta skiptið sem þeir mættu andstæðingum sem spáð hefur verið í toppbaráttu og má segja að þeir hafi skítfallið á því prófi. KR-ingar geta hins vegar verið mjög sáttir við sinn leik.
 
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson
Fréttir
- Auglýsing -