spot_img
HomeFréttirHannes: Menn verða líka að muna að rýna til gagns

Hannes: Menn verða líka að muna að rýna til gagns

 
Eftir grein sem Karfan.is briti síðastliðinn miðvikudag þar sem Tómas Tómasson tjáir sig um launahækknir íslenskra körfuknattleiksdómara leituðum við viðbragða hjá Hannesi Sigurbirni Jónssyni formanni Körfuknattleikssambands Íslands. Hannes segir nokkrar rangfærslur vera í grein Tómasar og að sú umræða um að KKÍ greiði dómarakostnað félaganna hafi oftar en einu sinni komið upp.
Launahækkun dómara hefur bersýnilega valdið nokkru fjaðrafoki eins og kom fram í grein Tómasar Tómassonar hér á Karfan.is á miðvikudag. Hefur KKÍ orðið vart við þessa gremju eins og kemur fram í greininni?
Við sem förum fyrir KKÍ vitum að sjálfsögðu af þessari óánægju hjá hluta okkar aðildarfélaga og því verður ekki leynt að mikið púður hefur farið í þetta mál á undanförnum vikum. Félögin eru að leita allra leiða til að hagræða í sínum rekstri þannig að launahækkunin er ekki að koma á góðum tíma það er ljóst.
 
Félögin samþykktu nýverið nýja gjaldskrá dómara en um hana voru skiptar skoðanir. Kosningin var væntanlega lýðræðisleg og hafa félögin í landinu þá eitthvað til að kvarta yfir?
Kjarasamningar dómara og félaganna hafa verið lausir í rúmt ár og hafa samninganefndir dómara og félaganna fundað ansi oft á þessum tíma til að gera nýjan samning. Nýr samningur byggir á fyrri samning ásamt nokkrum nýjum atriðum sem koma inn. Nýr samningur var kynntur af samninganefnd félaganna á formannafundi í september, þar var samningurinn felldur. Samningaaðilar funduðu að nýju og á formannafundi nú um miðjan október var nýr samningur samþykktur af meihluta félaganna. Ljóst var strax fyrir seinni formannafundinn að félögin skiptust í tvær fylkingar í málinu. Óskað var eftir leynilegri atvæðagreiðlsu og varð niðurstaðan úr þeirri atkvæðagreiðslu að meirihluti félaganna samþykkti samninginn, samningurinn var því samþykktur á eins lýðræðislegan hátt og hægt er. Að sjálfsögðu mega félögin svo hafa sínar skoðanir á málinu og dettur mér ekki í hug að segja að allir verði bara að vera sáttir og brosa, en niðurstaðan er ljós, meirihluti félaganna samþykkti samninginn.
 
Hvaða staða væri uppi nú ef samningar millum dómara og félaga hefðu ekki náðst?
Því get ég ekki svarað þar sem ekki kom til þess, ég á ekki spádóms"kúlu" því miður.
 
Í viðtali á Stöð 2 á miðvikudag ræðir þú um ýmsar rangfærslur í grein Tómasar, hverjar eru þær?
Laun dómara eru ekki svona há, hluti af þessu er ýmis kostnaður eins og ferðakostnaður og hann er reiknaður út eftir tölum Vegagerðarinnar og ríkisskattstjóra samkvæmt samningum milli félaganna og dómaranna til margra ára og það er erfitt að finna betri leiðir til að reikna slíkt en ferðakostnaður er yfir helmingur af því sem félög greiða til dómara. Að sjálfsöðgu þarf að leita leiða til að lækka þennan ferðakostnað og erum við þessa dagana að skoða það hvort KKÍ geti séð dómurum fyrir bílum eins og t.d. bílaleigubílum í sínar ferðir.
Varðandi dómaraelítuna þá verð ég að segja að þar virðist Tómas ekki hafa kynnt sé málin nægilega vel og vera einn þeirra sem heldur að KKDÍ sjái um að raða dómurum á leiki. Það er ekki rétt og er ég ansi oft að leiðrétta þann misskilning. Dómaranefnd KKÍ sér um að raða á leiki og er sú nefnd skipuð af stjórn KKÍ og starfar á ábyrgð stjórnarinnar eins og aðrar fastanefndir sambandsins. Núverandi formaður hennar er Pétur Hrafn Sigurðsson fyrrverandi framkvæmdastjóri KKÍ og með honum sitja Rögnvaldur Hreiðarsson og Sigmundur Már Herbertsson og þessir menn sinna nefndarstörfum í sjálfboðavinnu eins og mjög margir í hreyfingunni. Þeir leggja mikinn tíma í störf sín og undir þeirra stjórn hefur virkum dómurum fjölgað til muna þó alltaf sé pláss fyrir fleiri. Það að dómarar geti valsað inn og út er ekki rétt, á þeim tímum þegar alltaf vantar dómara getur dómaranefnd ekki sagt nei við menn sem hafa dómarapróf, jafnvel reynslu og vilja dæma. En dómaranefnd setur kröfur á menn, nú hlaupa menn þrekpróf þrisvar á ári og gangast undir skrifleg próf reglulega og það dæmir enginn í efri deildum sem ekki stenst gæðakröfur dómaranefndar. Reglulega eru haldnir fundir á vegum dómaranefndar til að skerpa á dómarahópnum og fræða og styðja þá sem hóp. Þá styðst dómaranefnd einnig við álit aðila sem nefndin treystir hverju sinni, það má því segja að dómaranefnd eigi "trúnaðarmenn" á ýmsum stöðum sem sjá mikið af leikjum yfir tímabilið. Það er því ljóst að undir forystu núverandi dómaranefndar hefur dómurum fjölgað og kröfur aukist.
 
Tómas nefnir einnig eftirlitskerfi, slíkt kerfi var komið á fyrir um 10 árum fyrir atbeina þáverandi dómaranefndar, hópur utanaðkomandi fólks var fenginn í verkefnið en ári seinna var það blásið af þar sem félögin höfðu ekki áhuga á að borga 250 þúsund krónur sem var kostnaðurinn við þetta þá. En eins og ég kom að áðan þá er núverandi dómaranefnd með vott að svona kerfi í formi þess að fá álit aðila sem dómaranefnd treystir.
 
Hve stór hluti í rekstri almenns félags hjá KKÍ er dómarakostnaður?
Dómarakostnaðurinn getur verið misstór hluti af rekstri félaganna og má segja að það fari mikið efir því í hvaða deildum félögin spila. Dómarakostnaður, það er laun, ferða-og fæðiskostnaður í fyrra við alla leiki í Iceland Express deild karla (deildarkeppni og úrslitakeppni) var 9.135.132 eða 58.937 á þá 155 leiki sem spilaðir voru í deildinni og úrslitakeppni.
 
Eru íslenskir dómarar að fá ósanngjarna gagnrýni? Hver finnst þér staða stéttarinnar vera?
Hér áttu væntanlega við almennt, í öllum íþróttum, allsstaðar í heiminum eru dómarar gagnrýndir, það verður alltaf hluti af leiknum.
Hvort sú gagnrýni sem á sér stað á Íslandi sé eitthvað meiri og ósanngjarnari en í öðrum löndum þá held ég að svo sé ekki. En það má líka benda á að fjölmargir íslenskir leikmenn sem leikið hafa erlendis hafa sagt eftir reynslu sína erlendis að kannski séu íslenskir dómarar ekki svo "slakir" eftir allt saman. Einnig hafa einstaklingar sem hafa farið og fylgst með íslenskum landsliðum spila erlendis oft haft á orði við mig og aðra hvað við eigum virkilega góða dómara þegar þeir hafa þá séð dómara frá hinum ýmsu þjóðum komna saman að dæma. En vissulega má gagnrýna og það á að gagnrýna en menn verða líka að muna að gagnrýni á að vera uppbyggileg, að rýna til gagns. Það má heldur ekki gleymast að hrósa stundum því það er hætt við að orð þeirra sem aðeins tjá sig á neikvæðu nótunum verði innantóm ef aldrei kemur jákvætt orð frá þeim til baka.
 
Hefur það komið til greina hjá KKÍ að greiða dómarakostnað félaganna og hvað myndi slíkt mögulega kosta?
Þessi umræða hefur komið upp stundum en því miður eins og rekstur KKÍ er í dag þá hefur KKÍ ekki fjármagn til þess frekar en önnur sérsambönd innan ÍSÍ fyrir utan KSÍ. KSÍ greiðir dómurum beint og milliðalaust en félagar okkar hjá KSÍ geta gert það þar sem þeir fá mikið fjármagn frá sínum alþjóðlegu samtökum sem er vel gert hjá þeirra samtökum og við samgleðjumst KSÍ að þau fái þessa greiðslur erlendis frá. Ef það gerist í framtíðinni að fjárhagur sambandsins verður það sterkur að stjórn KKÍ geti aðstoðað félögin sín þá að sjálfsögðu verður það gert. Það má ekki gleyma því að KKÍ eru félögin og félögin eru KKÍ og og því hagur allrar hreyfingarinnar að fjárhagur sambandsins sé sem sterkastur.
 
 
Eftirlitskerfi dómara er eitthvað sem margir hafa viljað sjá, er slíkt raunsætt, að fá óháða aðila til að taka út störf dómara?
Ég svaraði þessu raunar hér fyrr í spjallinu. Eftirlitskerfi er draumurinn en það hefur ekki verið vilji fyrir því eða peningar að koma því almennilega á fótinn. Það er vissulega eftirlit með dómurum í dag sem dómaranefnd sér um og svo eru eftirlitsmenn á sumum leikjum sem hafa þó fyrst og fremst það hlutverk að fylgjast með störfum ritaraborðs en einnig að skila skýrslu til dómaranefndar um störf dómara.
 
 
Hvernig gengur að fá ungt fólk til að gerast dómarar?
Eins og kom fram fyrr í þessu spjalli okkar þá hefur dómurum fjölgað á síðustu árum en það vantar alltaf fleiri dómara. Ég hvet því sem flesta að mæta á dómaranámskeið sem haldinn verða á næstu vikum en það verða til dæmis námskeið á Suðurlandi og Suðurnesjum nú í nóvember.
 
Fréttir
- Auglýsing -