spot_img
HomeFréttirFramlengjubikarinn: Stanslaust stuð í Hólminum

Framlengjubikarinn: Stanslaust stuð í Hólminum

 
Marquis Sheldon Hall var að spila sinn annan leik og fyrsta heimaleik eftir mannaskipti hjá Snæfelli. Bárður Eyþórsson var mættur á heimaslóðir, kominn á kaf í boltann aftur með Tindastóli þegar þeir mættu suður yfir heiðar og mættu Snæfelli í Lengjubikarkeppni karla.
Byrjunarliðin:
Snæfell: Pálmi, Nonni Mæju, Sveinn Arnar, Quincy, Marquis.
Tindastóll: Maurice, Þröstur, Friðrik, Trey, Helgi Rafn.
 
Jafnt var á með liðunum framan af fyrsta hluta og liðin skiptust á að skora. Bæði lið greinilega tilbúin í verkefnið í upphafi. Sveinn Arnar og Quincy hafa æft vel fyrir veggspjöldin en tvö litu dagsins ljós í fyrsta hluta. Staðan eftir fyrsta hluta 26-22 en Marquis setti hann á flautunni frá miðju fyrir Snæfell.
 
Tindastóll jafnaði strax 26-26 og voru nokkuð léttir bara í sínum leik en leikruinn varð strax hraður og mistækur líka í upphafi annars hluta. Snæfelli gekk illa að koma skotum sínum niður og Tindastóll hélt sér inn í leiknum á meðan en var ekkert að nýta sér mistök Snæfells sérstaklega. Staðan var jöfn 30-30 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og varnir beggja liða voru að vinna þokkalega. En Tindastóll var þó einhverjum hressleika á undan. Snæfell jafnaði 37-37 með þrist frá Nonna Mæju og bætti hann öðrum í 40-39 sem var staðan í hálfleik.
 
Hjá Snæfelli var Marquis Hall kominn með 15 stig og 4 stoðsendingar og Nonni Mæju 10 stig. Hjá Tindastól var Trey Hampton með 12 stig og næstur honum Helgi Rafn með 6 stig.
 
Þröstur byrjaði á þrist fyrir Tindastól og jafnaði 42-42 og annar fylgdi hjá Friðriki Hreinssyni sem kom þeim í 42-45 og Snæfell á hælunum og of háum bara. Svo komu bomburnar sem blautar tuskur í andlitið á Snæfelli, Þröstur með þrist úr horninu og Friðrik annan strax í næstu sókn og staðan 46-57 og Snæfell tók leikhlé. Það var svo Trey Hampton sem kom þeim strax í 46-60 og Tindastóll voru komnir með allt vald á leiknum. Snæfell áttu þá næstu 7 stig og löguðu stöðuna 53-60 og virtust ekki alveg sofnaðir þegar Quincy átti góða yfirtroðslu 57-62. Snæfell náði svo á ævintýralegann hátt að sækja með látum til baka og staðan 60-62 fyrir lokaátökin.
 
Kaflaskil urðu strax og Tindastóll byrjaði með að komast í 62-68 og mikið stuð á báðum liðum til skiptis. Mikil umskipti á baráttu Tindastóls frá síðustu leikjum og greinilegt að margt að smella vel saman hjá þeim þar sem mannskapurinn er vel til staðar. Snæfell var alltaf stiginu á eftir um miðjann hlutann og jafnaði svo 72-72. Þorparinn Hafþór Gunnarsson gerði Tindastól erfitt fyrir á kafla. Þegar ein og fimmtíu voru á klukkunni var staðan 78-74 fyrir Snæfelli og allt í járnum þegar staðan varð 81-82 fyrir Tindastól og 11 sek eftir. Snæfell átti boltann en Marquis hitti ekki úr skotinu og Tindastóll rauk í sókn, Miller fór á línuna fyrir Tindastól og smellti öðru vítinu niður 81-83. Eftir leikhklé og með 2,5 sek eftir setti Pálmi Freyr „lay-up“ 83-83 og framlenging raunin, allar neglur að verða búnar í Hóminum.
 
Marquis setti strax þrjú fyrir Snæfell og fylgdi eftir með „og einni“ í næstu sókn. Snæfell missti Quincy og Marquis útaf með 5 villur á meðan Maurice Miller og Svavar Atli fuku útaf hjá Tindastóli. Óli Torfa fylgdi svo hjá Snæfelli. Staðan var 91-90 eftir einn stórþristinn enn hjá Friðriki Hreinssyni, þegar Helgi Rafn klikkar á 3 af 4 vítum en jafnar samt 91-91. Snæfellingar smella sér í sókn og brýtur Helgi Freyr á Nonna Mæju þegar 2.6 sek eru eftir og Jón Ólafur Jónsson smellir báðum niður og klárar leikinn í lokin 93-91 í spennutreyjuleik.
 
Snæfell: Marquis Hall 30/7 stoðs/3 stolnir boltar. Quincy Cole 14/11 frák. Nonni Mæju 14/4 frák. Hafþór Gunnarsson 11. Sveinn Arnar 8/4 stoðs. Ólafur Torfason 7/8 frák/3 stoð. Pálmi Freyr 6/4 frák. Egill Egilsson 3 stig.
 
Tindastóll: Trey Hampton 20/7 frák/3 stoð. Friðrik Hreinsson 18/3 frák/5 stoðs. Maurice Miller 13/6 frák/5 stoðs. Þröstur Leó Jóhannsson 13. Helgi Rafn Viggósson 12/6 frák. Svavar Atli Birgisson 8/3 frák. Pálmi Jónsson 5. Helgi Margeirsson 2.
 
Punktar:
• Framlengjubikarinn sagði einhver eftir að hafa heyrt af leik KR og Þórs þar sem einnig ver framlengt.
• Friðrik Hreinsson var þvílíkt að stríða Snæfelli með stórum skotum og kláraði niður 4/5 þristum á ögurstundum.
• Snæfell var með 7/29 í þriggjastiga skotum….höfum séð það betra.
• Á móti voru þeir með 78.5% vítanýtingu en Tindastóll 61.9%. Síðustu stigin fóru mikið fram á vítalínunni þar sem litlu mátti muna.
• Tindastólsmenn voru þó ánægðir með óskalagið í hálfleik en Helgi Rafn fékk þá Vaxandi þrá með Geirmundi sett á fóninn.
• Enginn skemmdi skó í leiknum 🙂
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -