,,Mér fannst þetta nokkuð fínt hjá okkur, mikið af ungum strákum að spila og góð eldskírn fyrir þá og frábært fyrir okkur að fá að taka þátt í þessu móti enda mikil reynsla sem fæst út úr því að spila gegn úrvalsdeildarliðum,“ sagði Pálmi Þór Sævarsson þjálfari Skallagríms í samtali við Karfan.is eftir tap Borgnesinga gegn ÍR í Lengjubikarnum.
,,Þetta undirbýr okkur vel fyrir næsta vetur,“ sagði Pálmi léttur á manninn og ljóst að Borgnesingar ætla sér upp í úrvalsdeild á nýjan leik.
,,Við lentum í hörkuleik gegn Hamri en við frusum aðeins, svipað og gerðist í kvöld þegar ÍR fór í svæðisvörn en við verðum búnir að vinna í því fyrir næsta leik,“ sagði Pálmi sem var án tveggja lykilmanna í kvöld.
,,Hörður Helgi Hreiðarsson fékk slæmt högg á hné gegn Hamri og verður væntanlega ekki með næstu 2-3 vikurnar og þá var Sigurður Þórarinsson ekki með í kvöld sökum veikinda. Okkur vantaði því tvo af stóru mönnunum okkar en ég var samt ánægður með framlagið hjá öllum. Um helmingur liðsins í kvöld voru leikmenn úr drengjaflokki og við sýndum í kvöld að við getum alveg staðið okkur nokkuð vel ef við höldum haus gegn stærri liðunum.“
Þá sakar ekki að hafa svona refi í bransanum eins og Sigmar Egilsson:
,,Simmi kemur með mikla yfirvegun og baráttu inn í hópinn, hann er mikill leiðtogi og á eftir að hjálpa okkur gríðarlega mikið. Hann er reyndar sautján og hálfu ári yfir meðalaldri í liðinu, það gerir samt ekkert til,“ sagði Pálmi í góðum gír eftir leikinn.
Varðandi framhaldið í fyrstu deild, eru það Skallagrímur, KFÍ og Hamar sem ætla að stinga af, eru þetta sterkustu lið deildarinnar?
,,Eins og þetta lítur út fyrir mér núna eru þetta sterkustu liðin á pappírunum en það eru þarna lið sem eiga eftir að geta strítt okkur, Þór Akureyri er að bæta við sig erlendum leikmönnum og ef ÍA nær að tengja eru þeir sterkir. Þarna eru líka Hattarmenn og í deildinni er fullt af góðum körfuboltaliðum sem ætla sér í úrvalsdeild.“
Mynd/ [email protected]
Viðtal/ [email protected]