Það var allt annar bragur á FSu-liðinu í gærkvöldi gegn Skallagrími í Iðu en í fyrstu þremur leikjum liðsins á Íslandsmótinu þetta haustið. Hlutverkaskipanin í sókninni er öll að skýrast, og það var ákveðið lykilatriði fyrir þetta lið, ef takast átti að hrista af sér slyðruorðið (þrír fyrstu leikirnir tapaðir). Það er skemmst frá því að segja að allir liðsmenn skiluðu sínu með samstilltu átaki og gríðarlegri baráttu og sigldu af öryggi heim fyrsta sigrinum, 104-90.
Heimamenn tóku strax forystuna, juku hana jafnt og þétt og héldu henni til loka. Raunar var leikurinn búinn eftir þriðja leikhluta, munurinn þá orðinn um 20 stig. Fjórði leikhlutinn var flautukonsert, þar sem leikmenn Skallagíms gerðu örvæntingartilraunir til að snúa taflinu sér í hag. Dómgæslan var að þessu sinni með betra móti af fyrstudeildarleik að vera.
Allir, sem á annað borð kæra sig um að vita eitthvað um körfubolta, vita að vörnin leggur grunn að genginu. Í þessum leik var vörn FSu-pilta alveg mögnuð, og komust Kanar þeirra Borgnesinga lítt áleiðis að körfunni, þar sem þeir strönduðu oft á Þorkeli Bjarnasyni. Stolnir boltar voru og margir, fyrir hverjum lausum bolta var barist hatrammlega.
Eftir því sem skerpist á hlutverkum innan liðsins gengur sóknarleikurinn betur. Allt annar bragur er nú á liðinu, og til marks um það skoraði FSu nú 42 stig innan vítateigs, á móti 16 í tapleiknum gegn Hetti um daginn. Þá fækkar töpuðum boltum smám saman, eru nú komnir niður í 17, úr einhverri ókristilegri tölu hátt á þriðja tugnum. Í síðasta pistli var fullyrt að þetta tvennt væri lykilatriði fyrir árangur liðsins. Og sannið til. Þessi gömlu fræði eru ekki svo vitlaus!
Leikstjórnandinn Bjarni Bjarnason er allur að ná sér á strik, dansar um og skapar færi á báða bóga. Með skarpari línum í leiðtogahlutverki leikstjórnandans kemur aukið sjálfstraust og ró yfir liðið sem allir leikmenn njóta góðs af. Bjarni setti 22 stig, tók 7 fráköst, fiskaði 12 villur á andstæðingana og stal 4 boltum, en hvorki vítanýting hans né þriggjastigaskotnýting var til eftirbreytni.
Kjartan þjálfari, Orri Borgfirðingur og Sæmundur „Marvin junior“ Valdimarsson voru sókndjarfir og baráttuglaðir. Skiluðu þeir boltanum vel í körfuna, oft eftir lagleg gegnumbrot eða glæsilegan samleik. Þriggja stiga skotin geiguðu flest að þessu sinni, og það er umhugsunarvert að það gerði bara ekkert til – vegna þess að fremur var hugað að öðru að þessu sinni. Orri var stigahæstur félaga sinna með 24 stig, tók einnig 6 fráköst og passaði boltann betur; augljósar framfarir þar. Sæmi skoraði 18 stig, varði 2 skot og heldur áfram að nýta styttri skotin frábærlega. Kjartan skoraði 13 stig og þó skotnýtingin væri ekkert sérstök lagði hann aðra góða þætti í púkkið: 8 fráköst, 3 varin skot, 2 stolna bolta og ómælda baráttugleði.
Svavar Stefánsson og Birkir Víðisson eru kornungir leikmenn og geysilega efnilegir. Svavar tröllstór miðherji með fínar hreyfingar og gott skot, Birkir flinkur bakvörður, leikinn og hittinn. Báðir eru áræðnir í betra lagi. Svavar var með 7 stig og 6 fráköst og Birkir skoraði 5.
Þessir ungu leikmenn (Orri og Sæmundur líka innan við tvítugt) munu halda áfram að bæta sig og innan tíðar munu þeir blómstra, sannið þið til. Þessi fullvissa grundvallast á því fyrirmyndarfyrirkomulagi FSu að byggja á og treysta sínum heimapiltum, en notast ekki að miklu leyti við aðkeypt vinnuafl, sem víða um land rænir ungmennin tækifærum sínum og framavonum – eða seinkar þeim um of.
Allir 12 leikmenn FSu. komu við sögu í leiknum. Þorkell, sem fyrr var getið, skoraði 7 stig og tók 7 fráköst, Eggert Guðlaugsson 6 og Daníel Kolbeinsson 2 stig. Gísli Gautason, Jóhannes Páll Friðriksson og Björn Pálmarsson bættu ekki við stigum á töfluna í þetta sinn.
Skallagrímsmenn áttu einfaldlega ekkert svar við stórleik FSu. að þessu sinni. Öflugastir þeirra voru Sigurður Þórarinsson með 18 stig, 10 fráköst, góða skotnýtingu og hæsta framlagið, 25 punkta, Harrison með 19 stig og 9 fráköst, Sigmar Egilsson með 13 stig, Holmes með 10 stig og 8 fráköst og Davíð Guðmundsson með 11 stig. Aðrir sem komust á blað voru Birgir Þór Sverrisson með 8 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar, Hilmar „FSu“ Guðjónsson 5 stig og þeir Óðinn Guðmundsson, Davíð Ásgeirsson og Elfar Már Ólafsson 2 stig hver.
Einu atriði þurfa umsjónarmenn FSu-liðsins að fara í saumana á – tölfræðifærslum á heimaleikjum. Sennilega á þetta við um fleiri heimavelli en Iðu, en stundum fá þeir áhorfendur sem fylgjast grannt með á tilfinninguna að eitthvað mætti laga þennan mikilvæga þátt. KKÍ hefur stundum staðið fyrir námskeiðum fyrir ritara og tölfræðiskrásetjara. Ekki veit ég hvort það hefur verið gert nýlega, en ef ekki, þá er full ástæða til þess, til þess að tryggja samræmd vinnubrögð og sameiginlegan skilning á ýmsum hlutum leiksins (t.d. stoðsendingum). Þetta er flókið ábyrgðarstarf og mikilvægt að RÉTT sé skráð. Ef ekki, hefur tölfræðiskráning verri en enga þýðingu.