,,Þetta bara kom, maður er búinn að æfa vel í sumar og svona,“ sagði Hjalti Vilhjálmsson kátur í leikslok eftir að Fjölnir hafði lagt KR 100-96 í Iceland Express deild karla. Hjalti hrökk í gang í fjórða leikhluta og setti tóninn hjá gulum sem leiddu aðeins í leiknum í stöðunni 8-5 og svo ekki aftur fyrr en í stöðunni 95-94.
Allt útlit var fyrir að KR myndi setja um 120 stig á Fjölni í kvöld og var Hjalti vitanlega ekki sáttur við vörn sinna manna á löngum köflum. ,,Við litum ekki vel út varnarlega, vorum bara slakir og ekki að tala saman þegar KR setti upp sínar hindranir. KR fékk allt of mörg opin skot en það kom barátta í þetta hjá okkur í lokin og við bara ætluðum okkur sigurinn.“
196 stiga leikur, var þetta bara gert fyrir áhorfendur?
,,Ég hugsa að við fáum bara fleiri áhorfendur á næsta leik fyrir vikið. Fólk hefur mætt mjög vel á leikina okkar og ég er mjög ánægður með þetta.“
Hversu mikilvægur var þessi sigur fyrir Fjölnisliðið?
,,Þetta var rosalega mikilvægt, við vorum örugglega þeir einu sem höfðu trú á Fjölnissigri í kvöld. Mér fannst KR-ingar bara koma værukærir inn í leikinn og ég held að það hafi hjálpað okkur mikið og gerði okkur kleift að klára þennan leik.“
Í síðustu leikjum hefur Fjölnir verið að halda andstæðingum sínum í kringum 80 stigin en er varnarleikurinn eitthvað sem hefur verið að valda þeim áhyggjum?
,,Vörnin hefur verið vandamál, til að byrja með á tímabilinu vorum við skelfilegir varnarlega en ég held að þetta sé að koma og í fjórða leikhluta í kvöld sýndum við að við getum spilað vörn. Það er barátta og dugnaður í þessu liði og vonandi heldur þetta bara áfram í næstu leikjum.“
Mynd/ Karl West – Hjalti Vilhjálmsson býður hér upp á þrefalda ógnun.