spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Tindastóll vann botnslaginn í Síkinu

Umfjöllun: Tindastóll vann botnslaginn í Síkinu

Tvö neðstu lið deildarinnar mættust í Síkinu í kvöld og þar að auki bæði án stiga svo það var ljóst að annað hvort liðið ynni sinn fyrsta sigur þegar Tindastóll tók á móti Val.
Það eru tæp sex ár síðan þessi tvö lið léku síðast saman í deild, en það var tímabilið 2005 – 2006 þegar bæði voru í 1. deild.
 
Byrjunarlið Tindastóls saman stóð af erlendu leikmönnum tveimur þeim Miller og Hampton og Þresti Leó og nöfnunum Helga Frey og Helga Rafni. Hjá Val byrjuðu þeir Ragnar Gylfason, Dicko, Hugee, Tratnik og nýji maðurinn Garrison Johnson.
 
Leikurinn hófst með nokkru jafnræði og tölur eins 7 – 7 og 10 – 10 sáust, en eftir það sigu Stólarnir örlítið framúr þó ekki værið forskotið mikið. Miller endaði svo fyrsta leikhluta með góðum þristi og Tindastóll náði þar með að leiða með sex stigum, 22 – 16.
 
Heimamenn byrjuðu svo annan fjórðung nokkuð sterkt, skoruðu 11 – 4 á gestina á fyrstu rúmum þremur mínútunum og virtust vera að stinga af. Þá byrjaði sóknarleikur þeirra að hökta, nokkar feilsendingar sáust og Valsmenn náðu áttum. Þar að auki hrökk Darnell Hugee í gang hjá þeim og skoraði 11 stig í röð á meðan Stólarnir svöruðu með fjórum stigum. Staðan 37 – 31 og leikhlutinn rúmlega hálfnaður. Þá hertu heimamenn sig aftur aðeins og náðu níu stiga forskoti 44 – 35. Lokaorðið á fyrri hálfleik áttu hinsvegar Valsmenn sem áttu smá sprett fyrir hléið og staðan í pásunni var 46 – 41. Allt útlit fyrir spennandi síðari hálfleik enda mikið í húfi fyrir bæði lið. Trey Hampton kominn með 14 stig fyrir Tindastól, en hjá Val var Darnell Hugee atkvæðamestur með 13 stig.
 
Sami barningurinn var í þriðja leikhluta. Tindastóll hafði forystu, en Valur náði að saxa forskotið öðru hverju niður, minnstur varð munurinn í stöðunni 53 – 51, en Bárður tók þá leikhlé og náði að brýna sína menn. Bæði lið léku fast mestallan leikinn og leyfðu dómararnir nokkuð mikið í leiknum. Valsmenn voru þó duglegri í villusöfnun og fékk Darnell Hugee sína fjórðu villu í lok þriðja leikhluta. Þar að auki voru bæði Tratnik og Johnson komnir með 3 villur. Eftir 30 mínútna leik var staðan 66 – 59 og ljóst að munurinn var enn það lítill að allt gat gerst.
 
Eftir að Valur skoraði fyrstu körfuna í fjórða leikhluta svaraði Þröstur Leó með þristi fyrir heimamenn og í kjölfarið fylgdu tvö víti frá Hampton. Munurinn orðinn 10 stig og heimamenn orðnir vonbetri. Valsmenn voru þó ekki af baki dottnir og klóruðu í bakkann í næstu sóknum. Í stöðunni 74 – 67 fór Hampton í hraðaupphlaup og var á leiðinni i auðvelda troðslu þegar hann hreinlega missti boltann. Þetta atvik virtist slá heimamenn aðeins útaf laginu því gestirnir skoruðu næstu 7 stig og staðan orðin jöfn og þrjár og hálf mínúta eftir.
 
Hampton svaraði þessu með sniðskoti og víti að auki, en Valsmenn voru ekki af baki dottnir og skoruðu næstu 4 stig og komu sér með yfir í fyrsta sinn síðan staðan var 3 – 5. Liðin skiptust síðan á sitt hvorri körfunni áður en Helgi Rafn kom Tindastóli yfir 81 – 80. Í næstu sókn Vals fékk Tratnik dæmdan á sig ruðning og þar með sína fimmtu villu, en Hugee hafði farið sömu leið nokkrum mínútum áður. Svo má segja að úrslitin hafi ráðist í næstu sókn Tindastóls, brotið var á Hampton sem setti samt skotið niður og í kjölfarið var dæmt tæknivilla á Birgir Pétursson. Hampton klúðraði vítinu sínu, en Friðrik Hreinsson var öryggið uppmálað á vítalínunni og setti bæði vítin niður sem dæmd voru vegna tæknivítisins. Þegar hér var komið var staðan orðin 85 – 80 og um mínúta eftir. Valsmenn nýttu ekki næstu sókn og Maurice Miller innsiglaði endanlega fyrsta sigur heimamanna með góðu skoti. Liðin hittu svo bæði úr tveimur vítum í restina, en niðurstaðan var orðin klár. Fyrstu tvö stig Tindastóls voru í húsi sem skildu Valsmenn eina eftir á botninum. Lokastaðan 89 – 82.
 
Stigahæstir Tindastólsmanna voru þeir Miller og Hampton með 21 stig. Einnig var Friðrik Hreinsson góður i kvöld með 20 stig og Helgi Rafn skilaði 10.
Hjá Val var Garrison Johnson með 23 stig, Darnell Hugee 19 og Igor Tratnik 18.
 
Dómarar voru þeir Björgvin Rúnarsson og Steinar Orri Sigurðsson. Leyfðu kannski full mikla pústra á köflum en héldu sinni línu samt þokkalega.
 
Mynd/ Úr safni: Tindastólsmenn höfðu ærna ástæðu til að fagna sínum fyrstu deildarstigum í kvöld.
 
Umfjöllun/ JS. 
Fréttir
- Auglýsing -