spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Karaktersigur Njarðvíkinga í Hellinum

Umfjöllun: Karaktersigur Njarðvíkinga í Hellinum

Njarðvíkingar gerðu góða ferð í Hellinn í kvöld þegar þeir lögðu ÍR 99-95 í Iceland Express deild karla. Óskabyrjun ÍR, 16-0, dugði ekki til að þessu sinni og afmælisbarn dagsins, Elvar Már Friðriksson, hélt upp á daginn með Njarðvíkingum er hann setti niður 12 stig, tók 4 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, ekki amalegt á bílprófsdaginn!
 
Flestir og þá Njarðvíkingar meðtaldir bjuggust eflaust við því að ÍR myndi fara með sigur af hólmi í Hellinum í kvöld þegar staðan var 16-0 ÍR í vil í fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar tóku þó við sér á endanum en heimamenn leiddu 27-15 að loknum fyrsta leikhluta. Grænir gestirnir náðu upp betri takti í vörninni í öðrum leikhluta en það voru þó ÍR-ingar sem leiddu 50-38 í hálfleik.
 
Í þriðja leikhluta settu Njarðvíkingar í fluggírinn í sóknarleiknum, ÍR-ingar voru þó áfram skrefinu á undan en á lokaspretti leikhlutans datt allt niður hjá þeim félögum Cameron Echols og Travis Holms svo Njarðvíkingar voru búnir að minnka muninn í fjögur stig fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Ekki leið á löngu í fjórða leikhluta uns Njarðvíkingar náðu að komast yfir og það í fyrsta sinn eftir um 33 mínútna leik, 80-81. Eftir þetta varð jafnt á öllum tölum, Njarðvíkingar náðu þó upp fimm stiga forystu og þegar níu sekúndur voru til leiksloka var hún komin upp í sjö stig. ÍR-ingar gerðu þó heiðarlega tilraun til að jafna og koma leiknum í framlengingu, náðu snöggri sókn og í kjölfarið kom tæknivilla á Njarðvíkinga. Það kom svo í hlut Nemanja Sovic að reyna jöfnunarskotið utan við þriggja stiga línuna en það vildi ekki niður og Njarðvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni og fögnuðu vel og innilega í leikslok.
 
Stigaskor:
 
ÍR-Njarðvík 95-99 (27-15, 23-23, 23-31, 22-30)
 
ÍR: Nemanja Sovic 31/9 fráköst, James Bartolotta 31, Kristinn Jónasson 18, Eiríkur Önundarson 6, Níels Dungal 6/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ellert Arnarson 3/4 fráköst/5 stoðsendingar, Hjalti Friðriksson 0, Húni Húnfjörð 0, Friðrik Hjálmarsson 0, Daníel Capaul 0, Bjarni Valgeirsson 0, Þorvaldur Hauksson 0.
 
Njarðvík: Travis Holmes 33/15 fráköst, Cameron Echols 28/10 fráköst, Elvar Már Friðriksson 12/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 10, Maciej Stanislav Baginski 10, Styrmir Gauti Fjeldsted 4, Rúnar Ingi Erlingsson 2, Sigurður Dagur Sturluson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0, Hilmar Hafsteinsson 0.
 
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Einar Þór Skarphéðinsson
 
 
Myndir og umfjöllun / Tomasz Kolodziejski – [email protected] 
Fréttir
- Auglýsing -