Gestir gærkvöldsins voru lið Þórs frá Akureyri. Liðin hafa hingað til átt ólíku gengi að fagna og Norðlendinga þyrstir í fyrstu stigin. Lið KFÍ er hins vegar ósigrað hingað til í 1. deildinni. Þór hefur verið að styrkjast að undanförnu og nýjir leikmenn bæst í hópinn. Það gladdi margan heimamanninn að hitta gamlan vin í Darko Milosevic sem þekkir vel fjalirnar á Jakanum eftir tvö síðustu tímabil. Gylfason…Ari Gylfason tók út leikbann og sat í stúkunni óaðfinnanlega klæddur í samræmi við hlutverk sitt í gærkvöld.
Venjulega ætti þetta að duga í uppskrift fyrir hörkuspennandi og tvísýnan leik, enda byjaði leikurinn á þeim nótum. Lið Þórs virkaði ákveðið og markvisst í öllum aðgerðum, og spiluðu þeir virkilega vel fyrstu mínuturnar, eða þar til staðan var 13:13. Á svipuðum tíma varð Chris fyrir einhverju hnjaski og þurfti að yfirgefa völlinn. Meiðslin reyndust, sem betur fer ekki eins slæm og þau virtust í fyrstu. Eftir þetta snérist lukkan heldur betur heimamönnum í vil, sem höfðu tögl og haldir allt til enda leiks. Í hálfleik var staðan orðin 52:37 og KFÍ með Craig nokkurn Schoen í broddi fylkingar voru ekki líklegir til þess að glutra þessari forystu niður.
KFÍ stjórnuðu leiknum í meira og minna, hörku vörn og mikil keyrsla á mönnum römmuðu inn flott liðsheild. Allir leikmenn á skýrslu, léku og smám saman tók hraðinn í leiknum, og hlaupin toll sinn á gestunum sem gáfu eftir þegar leið á tvo síðustu leikhlutana. Lokastaðan var 92:65, öruggur KFÍ sigur.
Að öðrum ólöstuðum verður að nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi er það frábær frammistaða Craigs, sem var með þrefalda tvennu og ekki dónalegan framlagsstuðul upp á 43! Kristján Pétur steig vel upp í kvöld með 21 stig og er gaman að sjá hvernig hann bætir leiksinn jafnt og þétt. Jón Hrafn var sem klettur í vörninni og virkilega sterkur í fráköstum. Pétur þjálfari tók enga áhættu með Chris og var hann hvíldur meira en vanalega, lék samtals 15 min sem þykir lítið á þeim bænum. Allir sem komu við sögu börðust eins og ljón, liðsheildin fær því enn á ný stærsta hrósið.
Um lið gestanna er það helst að segja, að greinilegt er að Þórsarar eiga eftir að hrista þennan hóp betur saman og spái ég þeim batnandi gengi þegar líður á tímabilið…það má bara helst ekki gerast of seint! Einnig er flestum ljóst, sem fylgjast með körfubolta hérlendis, að hinn 17 ára gamli Stefán Karel er mikið efni. Á hann eru lagðar miklar byrðar og reyndar virðist hann standa undir þeim nokkuð keikur, við munum sjálfsagt heyra meira af honum í framtíðinni. Í kvöld tefldu Þórsarar fram fleiri ungum og tiltölulega óreyndum leikmönnum, má segja það sama um þá og Stefán Karel, að þetta tímabil gefur þeim tækifæri til þess að axla mikla ábyrgð. Í bland við þessa ungu leikmenn eru auðvitað reynsluboltar, eins og t.d. Guðmundur Oddson sem sýndi ódrepandi baráttu að þessu sinni.
Þór Akureyri: Stefán Karel Torfason 18/7 fráköst, Guðmundur Oddson 11, Darko Milosevic 10/7 fráköst, Elías Kristjánsson 10, Spencer Harris 9, Sindri Davíðsson 4, Þorbergur Ólafsson 3.
KFÍ: Craig Schoen 28/10 fráköst/10 stoð/ 3 stolnir, Kristján Pétur Andrésson 21, Jón Hrafn Baldvinsson 15/10 fráköst, Chris Miller-Williams 12/9 fráköst, Sigurður Hafþórsson 6, Óskar Kristjánsson 2, Sigmundur Helgason 2, Sævar Vignisson 2.
Dómarar: Ágúst Jensson, Steinar O. Sigurðsson.
Mynd og umfjöllun/ Helgi Kr. Sigmundsson