spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Keflvíkingar stungu af í síðari hálfleik

Umfjöllun: Keflvíkingar stungu af í síðari hálfleik

Keflavík stakk Val af í síðari hálfleik þegar liðin mættust í Lengjubikar karla í Vodafonehöllinni í kvöld. Darnell Hugee var sendur út úr húsi þegar hann ætlaði sér að hjóla í leikmann Keflavíkur og eftir þá uppákomu var eftirleikurinn auðveldur hjá Keflvíkingum sem unnu 93-115 og Valsmenn mega því enn bíða eftir sigri þessa leiktíðina.
 
Fyrsti fjórðungur var jafn mest allan tímann, Keflavík leiddi í upphafi en Valsmenn spiluðu af sömu ákefð og Keflvíkingar og uppskáru nokkurra stiga forystu um miðbik fjórðungsins eftir að Darnell Hugee hafði troðið eftir "Alley-Oop" sendingu frá Ragnari Gylfasyni og leiddu í lok hans 26-24.
 
Annar leikhluti byrjaði eins og sá fyrsti endaði, liðin skiptust á að skora. Valsmenn brutu nokkrum sinnum af sér fljótlega og Keflvíkingar fengu skotrétt eftir þrjár og hálfa mínútu þegar staðan var jöfn 35-35. Bæði lið settu þrist í kjölfarið og Keflavík gott betur og skoraði 6 stig gegn þremur Valsmanna og náðu 4 stiga forystu 38-42 þegar 5:20 voru eftir af fjórðungnum. Valsmenn tóku léikhlé og komu brjálaðir til leiks og komast yfir 49-47 með tveimur vítum frá Hugee þegar tvær mínútur eru eftir af fjórðungnum. Bráðfjörugugum fjórðungi lýkur með þriggja stiga skoti frá Steven Gerard D’Agustino og tveggja stiga forystu Keflavíkur 54-56.
 
Keflvíkingar byrja seinni hálfleik með látum og skora 7 fyrstu stigin áður en Valur nær að skora og staðan orðin 56-62 eftir eina og hálfa mínútu, en Valsmenn hafa þá þegar klikkað á fjórum þristum. Charles Parker setur þrist þegar sjö mínútur eru eftir og Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals tekur leikhlé í stöðunni 56-67. Keflavík heldur áfram að pressa lítillega og Valsliðið lendir í svolitlum vandræðum og tapar nokkrum boltum. Valsmenn virtust hérna hættir að spila saman og Keflavík jók forystuna í 12 stig 60-72 eftir enn einn tapaðan bolta og Ágúst tekur annað leikhlé þegar 4:48 eru eftir af fjórðungnum. Hvorki gegnur né rekur hjá Val og Keflavík nær 18 stiga forystu 61-79 þegar þrjár mínútur eru eftir. Allt ætlaði að sjóða uppúr i lok fjórðungsins þegar Darnell Hugee féll illa í gólfið eftir einhverjar stimpingar við Sigurð Friðrik Gunnarssonon en Hugee elti Sigurð yfir þveran völlinn og ætlaði greinilega að hjóla í hann. Dómara, leikmenn beggja liða og fleiri þurfti til að hemja Hugee. Þessu lauk að sjálfsögðu með því að Hugee var rekinn út úr húsi þegar 16 sekúndur voru eftir af fjórðungnum. Þriðja leikhluta lauk með 13 stiga forystu Keflavíkur 67-80. Keflavík vann þriðja leikhluta 13-26.
 
Lokaleikhlutinn varð einstefna, Keflavík skoraði 17 stig á móti 9 stigum Vals og 23 stiga munur orðinn staðreynd eftir fjórar og hálfa mínútu og stefndi í öruggan sigur Keflavíkur. Staðan 79-102 þegar fjórar og hálf mínúta er eftir og aðeins formsatriði að ljúka leiknum. Staðan 90-104 eftir að Birgir Björn Pétursson setur víti og Ragnar Gylfason setur sniðskot og víti að auki og tvær mínútur eftir. Yngri leikmenn beggja liða fá tækifæri síðustu mínúturnar. Lokatölur leiksins 93-115 og Valsmenn verða enn að leita að fyrsta sigrinum í vetur.
 
Leikurinn lofaði góðu í fyrri hálfleik en Valsmenn réðu ekki við Keflvíkinga í síðari hálfleik og eftir að Darnell Hugee var rekinn úr húsi átti liðið fá svör við leik Keflvíkinga sem unnu sanngjarnan sigur.
 
 
Stigaskor:
 
Valur: Darnell Hugee 19/6 fráköst, Garrison Johnson 19/5 fráköst, Igor Tratnik 17/12 fráköst, Ragnar Gylfason 10/5 fráköst, Austin Magnus Bracey 8, Benedikt Blöndal 5, Snorri Þorvaldsson 4, Birgir Björn Pétursson 4/8 fráköst, Ágúst Hilmar Dearborn 4, Alexander Dungal 3, Bergur Ástráðsson 0, Kristinn Ólafsson 0.
 
Keflavík: Charles Michael Parker 28/5 fráköst/7 stoðsendingar, Jarryd Cole 21/8 fráköst, Steven Gerard Dagustino 19/8 fráköst/5 stoðsendingar, Hafliði Már Brynjarsson 12, Almar Stefán Guðbrandsson 9, Ragnar Gerald Albertsson 8, Halldór Örn Halldórsson 6, Gunnar H. Stefánsson 5, Sigurður Friðrik Gunnarsson 3, Kristján Tómasson 2, Valur Orri Valsson 2, Andri Daníelsson 0.
 
Umfjöllun: Hannes Birgir Hjálmarsson 
Fréttir
- Auglýsing -