spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Fyrsti sigur Njarðvíkurkvenna í DHL-Höllinni í 7 ár

Umfjöllun: Fyrsti sigur Njarðvíkurkvenna í DHL-Höllinni í 7 ár

Njarðvíkingar eru komnir upp í 2. sæti Iceland Express deildar kvenna eftir 73-84 sigur á KR í DHL-Höllinni. Njarðvíkingar tóku forystu snemma leiks og létu hana aldrei af hendi, Lele Hardy, Shanae Baker og Erna Hákonardóttir leiddu grænar til sigurs í kvöld en hjá KR voru Sigrún Ámundadóttir og Erica Prosser atkvæðamestar. KR tapaði sínum þriðja leik í röð á meðan Njarðvíkingar komust aftur á beinu brautina eftir tap á heimavelli gegn Haukum í síðustu umferð.
Sigurinn í kvöld var sá fyrsti hjá kvennaliði Njarðvíkur á KR í vesturbænum síðan árið 2004 en það ár féll KR. Með Njarðvíkingum lék þá Margrét Kara Sturludóttir en hún var eini leikmaðurinn í kvöld sem kom nálægt þeim leik fyrir 7 árum.
 
Erna Hákonardóttir mætti svellköld til leiks í vesturbænum í kvöld og smellti niður þremur þristum í jafn mörgum tilraunum og gestirnir leiddu snemma 5-13 þegar röndóttar tóku leikhlé. Njarðvíkingar mættu með svæðisvörn en gegn henni náði Margrét Kara strax að setja þrist fyrir KR, ólíkt því sem uppi var á teningnum í leik KR gegn Keflavík á dögunum.
 
Með hverri sókninni sem leið í fyrsta leikhluta fundu röndóttar betri og betri glufur á svæðisvörn Njarðvíkinga sem var ekkert sérlega vel útfærð fyrstu tíu mínútur leiksins. KR komst fyrir vikið nærri og minnkaði muninn í 16-21 þar sem Erica Prosser skoraði síðustu stig leikhlutans fyrir KR úr hraðaupphlaupi um leið og tíminn rann út.
 
Njarðvíkingar héldu áfram um stjórnartaumana í öðrum leikhluta og kom Shanae Baker grænum í 28-40 með þriggja stiga körfu en með harðfylgi náðu KR-ingar að minnka muninn í 7 stig fyrir leikhlé, 38-45. Munurinn hefði getað verið meiri ef Njarðvíkingar hefðu ekki brotið klaufalega á Ericu Prosser þegar 0,2 sekúndur voru til hálfleiks og fékk hún þrjú vítaskot fyrir vikið.
 
Lele Hardy var með 14 stig og 7 fráköst hjá Njarðvík í hálfleik og Erna Hákonardóttir var með 9 stig. Hjá KR var Erica Prosser með 13 stig og 3 stoðsendingar og Margrét Kara Sturludóttir með 7 stig og 3 fráköst.
 
Njarðvíkingar héldu sig áfram við 2-3 svæðisvörnina í síðari hálfleik og voru framan af þriðja að leiða með um 10 stiga mun. Töluvert andleysi var yfir KR-ingum í leikhlutanum og í ofanálag fóru villuvandræði að gera vart við sig. Bryndís Guðmudnsdóttir fór af velli með fjórar villur í liði KR þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Njarðvíkingar gengu á lagið og juku muninn í 55-70 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
KR hafði sigur í einum þætti leiksins í kvöld og það voru fráköstin, Sverrir Þór hafði vart undan við að minna grænar á að stíga út en þær létu sér ekki segjast og fengu ríflegan skammt af stigum yfir sig frá KR eftir sóknarfráköst.
 
Margrét Kara Sturludóttir var utan vallar allan fjórða leikhluta en þrátt fyrir þá staðreyndi fóru röndóttar að saxa á mun Njarðvíkinga. Sigrún Ámundadóttir fór þar fremst í flokki og KR náði að minnka muninn í 67-73.
 
Lokamínúturnar voru viðkvæmar hjá KR, Helga Einarsdóttir, Erica Prosser og Bryndís Guðmundsdóttir voru allar komnar með fjórar villur og þegar 1.40mín. voru eftir fékk Prosser sína fimmtu villu. Þar með datt botninn úr leik KR og Njarðvíkingar kláruðu dæmið 73-84.
 
KR fékk kjörið tækifæri til að komast upp að hlið Njarðvíkinga en andvaraleysið í hópnum í kvöld nánast lamaði leikmenn liðsins. Að sama skapi fengu Njarðvíkingar fínt framlag úr mörgum áttum, þær Hardy og Baker stóðu fyrir sínu í grænu og Erna Hákonardóttir átti góðar rispur. Njarðvíkingar léku svo án Ólafar Helgu Pálsdóttur sem varð eftir heima sökum veikinda. Í KR-liðinu kom Helga Einarsdóttir sterk af bekknum með 13 stig og 10 fráköst. Sigrún Ámundadóttir var stigahæst með 23 stig og 9 fráköst og var driffjöður KR í kvöld en ein um það á allt of stórum köflum leiksins.
 
Úrvalsdeild kvenna þetta árið er gríðarlega jöfn og nánast aldrei hægt að segja til um sigurvegara í einstökum leikjum. Deildin er því með skemmtilegasta móti og boðið upp á 28 umferðir svo enn er langt í land og virkilega spennandi keppni framundan.
 
 
Stigaskor
 
KR-Njarðvík 73-84 (16-21, 22-24, 17-25, 18-14)
 
KR: Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 23/9 fráköst, Erica Prosser 20/5 fráköst/5 stoðsendingar, Helga Einarsdóttir 13/10 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 10/8 fráköst/6 stoðsendingar, Margrét Kara Sturludóttir 7/5 fráköst, Helga Hrund Friðriksdóttir 0, Hafrún Hálfdánardóttir 0, Rannveig Ólafsdóttir 0, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Kristbjörg Pálsdóttir 0, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0, Anna María Ævarsdóttir 0.
 
Njarðvík: Lele Hardy 30/13 fráköst, Shanae Baker 18/8 fráköst/8 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 15, Eyrún Líf Sigurðardóttir 7, Petrúnella Skúladóttir 4/5 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 4/6 fráköst, Sara Dögg Margeirsdóttir 4, Harpa Hallgrímsdóttir 2/4 fráköst, Emelía Ósk Grétarsdóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0, Aníta Carter Kristmundsdóttir 0.
 
Dómarar: Jón Bender, Davíð Kr. Hreiðarsson
 
Umfjöllun og myndir / Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -