spot_img
HomeFréttirJakob og Pavel báðir með 23 stig í sigri gegn Jamtland

Jakob og Pavel báðir með 23 stig í sigri gegn Jamtland

Þrír leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í gær. Íslendingaliðin Sundsvall Dragons og Jamtland Basket mættust þá á heimavelli Jamtland þar sem meistarar Sundsvall fóru með sigur af hólmi og Íslendingarnir þrír í búningi drekanna létu sitt ekki eftir liggja.
Lokatölur leiksins voru 88-93 Sundsvall í vil. Pavel Ermolinski gerði 23 stig í leiknum, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og splæsti í 29 framlagsstig. Jakob Örn Sigurðarson gerði einnig 23 stig og gaf 6 stoðsendingar og þá var fyrirliðinn Hlynur Elías Bæringsson með 14 stig og 10 fráköst.
 
Brynjar Þór Björnsson skoraði 6 stig fyrir Jamtaland í leiknum, stigin komu úr þristum en hann setti niður 2 af 4 þristum sínum í leiknum og var auk þess með tvo stolna bolta.
 
Þrátt fyrir sigurinn er Sundsvall enn í 4. sæti deildarinnar en Jamtland er í 8. sæti.
 
 
Jakob Örn Sigurðarsson er efsti Íslendingurinn í stigaskori í deildinni með 17,33 stig að meðaltali í leik og er þá sjöundi stigahæsti leikmaður deildarinnar. Logi Gunnarsson er næstur í 12. sæti með 16,36 stig á leik og í 18. sæti er Pavel Ermolinski með 14,17 stig á leik.
 
Í stoðsendingum er Pavel Ermolinski efstur okkar manna í 8. sæti með 4,08 stoðsendingar að meðaltali í leik, Logi Gunnarsson er í 17. sæti með 3,0 stoðsendingar á leik og Jakob Örn í 20. sæti með 2,67 stoðsendingar að meðaltali í leik.
 
Hlynur Bæringsson er fjórði frákastahæsti leikmaður deildarinnar með 9,9 fráköst að meðaltali í leik og Pavel Ermolinski nær 12. sætinu með 6,83 fráköst á leik. Helgi Magnússon leikmaður 08 Stockholm HR kemur svo inn í 20. sæti með 5,40 fráköst á leik.
 
Í framlagsjöfnunni er Hlynur Bæringsson fremstur okkar manna í 7. sæti deildarinnar með 19,20 framlagsstig í leik. Strax í 8. sæti er Pavel Ermolinski með 19,08 framlagsstig í leik. Aðrir íslenskir leikmenn ná ekki inn á topp 20 listann í framlagsjöfnunni.
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -