Njarðvíkingar eru deildarmeistarar í Subwaydeild karla eftir spennusigur á nágrönnum sínum úr Keflavík 98-93. Dedrick Basile fór mikinn fyrir heimamenn með 25 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar. Sigur Njarðvíkinga í deildinni er þeirra fyrsti deilarmeistaratitill síðan 2007.
Njarðvíkingar mættu ferskir með dýrvitlausa hjörð að baki sér og opnuðu leikinn 9-2 en Keflvíkingar voru fljótir að jafna sig og svöruðu með 2-10 hlaupi og komust í 11-12. Það voru þó Njarðvíkingar með Basile heitann sem leiddu 25-21 eftir fyrsta leikhluta. Stemmningin var gríðarleg í húsinu og Ljónagryfjan þéttpökkuð.
Ólafur Helgi Jónsson kom með vítamín inn í leik Njarðvíkinga í öðrum leikhluta og plantaði niður 7 stigum á skömmum tíma. Heimamenn voru feti framar og Basile hélt áfram að tengja vel flest skotin sín. Njarðvíkingar leiddu 50-43 í hálfleik þar sem Basile var kominn með 17 stig og Mario 11. Hjá Keflavík var Jaka með 11 af bekknum og Milka 9.
Fotis kom sprækur inn í þriðja með þrjár villur hjá Njarðvík og kom heimamönnum í 61-51 með þrist þegar fjórar mínútur voru liðnar af þriðja. Fotis lék mjög vel í þriðja og Njarðvík hélt forystunni þó Keflvíkingar væru aldrei langt undan. Gestirnir voru mun ákafari í frákastabaráttunni og leit lengi vel út að yfirburðir þeirra þar myndu koma þeim upp að hlið Njarðvíkinga. Heimamenn leiddu 72-67 eftir þriðja þar sem Keflavík vann leikhlutann 22-24.
Í fjórða fór allt í járn, Njarðvíkingar enn við stýrið og þegar líða tók á leikhlutann var ljóst að menn höfðu tekið vel út úr orkubúi sínu. Misgáfulegir þristar sáust nokkrum sinnum á báða bóga og voru víðsfjarri en heimamenn héldu dampi og lokuðu leiknum 98-93.
Eftir umferð kvöldsins er ljóst að Njarðvíkingar mæta KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og Keflavík mætir Tindastól.
Tölfræði leiks
Myndasafn (Skúli)
Mynd / Njarðvík FB