Ef einhver mætir í DHL-Höllina í kvöld þá er það Jóhannes Árnason, leikmaður úr hinum fræga 1980 árgangi þeirra KR-inga og fyrrum þjálfari kvennaliðs félagsins. Við tókum púlsinn á Jóa sem býst við dramatík þegar KR og Grindavík mætast í Iceland Express deild karla í kvöld.
Hvað verður á boðstólunum í leik KR og Grindavíkur í kvöld?
Þetta byrjar á börger og kaldri kók þar sem farið verður yfir möguleika KR liðsins í kvöld. Ef leikmenn KR fara eftir því sem við spekingarnir komumst að í félagsheimilinu þá vinna þeir. Ef ég á að sjá þetta fyrir þá held ég að þetta verði hraður leikur með miklu stigaskori og það lið vinnur sem verður með betri 3 stiga nýtingu. Annars held ég að þetta séu tvö skemmtilegustu liðin í ár og leikurinn verður skemmtilegur.
Hvaða leikmaður á eftir að njóta sín í þessum slag?
Við KRingar erum mjög hrifnir af hæfileikaríkum leikmönnum og því verður spennandi að sjá Ólaf í háloftunum í kvöld. Hann á alltaf góða leiki á móti KR. Við eigum einn geimfara sjálfir sem heitir Kristófer og alltaf spennandi að sjá hvort hann nái inn einni troðslu eða svo. Annars mun mikið mæða á erlendum leikmönnum beggja liða jafnt sem stóru strákunum. Siggi Þorsteins spilar alltaf vel í DHL höllinni og það er lykilatriði fyrir KR að halda honum fyrir neðan meðaltal.
Hvort liðið vinnur í stúkunni?
Ég á ekki von á öðru en að stúkan verði troðfull í kvöld. Stuðningsmenn beggja liða munu fjölmenna og ég ætla að skjóta á það að liðið sem á fleiri troðslur í leiknum vinni stúkuslaginn.
Hvaða leggja þjálfarar liðanna áherslu á í kvöld?
Þjálfararnir leggja eflaust upp með það að leikmenn séu einbeittir frá byrjun því hvorugt lið vill lenda mikið undir til að byrja með. Báðir þjálfarar munu því leggja mesta áherslu á vörnina. Mér þykir ekki ólíklegt að planið sé að byrja á því að fara undir körfuna og opna þannig fyrir skytturnar.
Grindavík er og hefur alltaf verið með þannig lið að það getur skorað 10 stig á einni mínútu og breytt gangi leiksins á augabragði. Þar geta allir skorað þannig að KRingar verða að taka þetta eins og alkarnir í skrefum, eitt skref í einu.
Annars vona ég að þetta verði skemmtilegur leikur og það er pottþétt mál að leikmennirnir vilja standa sig vel í kvöld. Leikurinn fer 103-102 fyrir KR þar sem KRingar tryggja sér sigurinn með umdeildum vítaskotum eftir að leiktíminn er liðinn.
KR-Grindavík
DHL-Höllin
Kl. 19.15 í kvöld
Ef þú ert ekki þar þá ertu hvergi!