spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Sjö í röð hjá KFÍ

Umfjöllun: Sjö í röð hjá KFÍ

Helstu samgönguleiðir innanlands voru greiðfærar í gær og það kom í hlut Breiðabliksmanna að leggja land undir fót fyrir leik kvöldsins á Jakanum í sjöundu umferð fyrstu deildar KKÍ. Gestirnir hafa á að skipa góðum leikmönnum og leikið undir stjórn Sævaldar Bjarnasonar þjálfara frá 2010. Lið þeirra í ár er tiltölulega ungt en um leið mjög efnilegt og spennandi, enda hafa þeir sigrað fjóra leiki af sex.
Fyrir þenna leik leiddi KFÍ deildina (6/0), en það varð ljóst í upphitun að einn sterkasti leikmaður KFÍ í haust væri ekki á leikskýrslu. Chris Miller-Williams var sem sagt mættur á hliðarlínuna í borgaralegum klæðum. Það var því ljóst að leikurinn myndi færa liðunum tækifæri. Í tilviki Breiðabliks, góðan möguleika á því að leggja efsta lið deildarinnar. En fyrir strákana í KFÍ tækifæri til þess að sýna að lið reiða sig ekki á einn mann, heldur liðsheild.
 
Byrjunarlið Breiðabliks: Arnar, Sigmar, Hraunar, Þorsteinn og Atli. Hjá KFÍ hófu leik þeir: Craig, Kristján, Siggi, Ari og Jón Hrafn. Strax á upphafsmínutum leiksins tóku Blikar leikinn mjög traustum tökum. KFÍ virtist mjög óörugt í einhæfum og stirðum sóknarleik á þessum kafla og í vörninni voru leikmenn hreinlega óáttaðir. Enda voru þeir varla með þegar Blikar settu niður 17 auðveld stig á móti 5 frá heimamönnum á fyrstu fjórum mínutum leiksins. KFÍ lagaði lítillega stöðuna það sem eftir lifði fyrsta fjórðungs, sem lauk 18:27 og náðu þannig líklega aftur fótfestu í þessum leik.
 
Þessa fótfestu nýtti KFÍ sér í öðrum leikhluta! Snéru þeir leiknum á einu augabragði (nánar tiltekið undir einni mínútu), þegar Ísfirðingar náðu 8:0 spretthlaupi og staðan orðin 26:27! Þessi leikur stóð algjörlega undir því nafni að vera kaflaskiptur því næst tók við fjögurra mínútna kafli þar sem Blikar náðu aftur góðri forystu 33:43. Endasprettur hálfleiksins var þó heimamanna sem löguðu stöðuna aftur, 50:51. Greinilegt að hugur leikmanna var í sókninni, sem vafalaust skapaði þjálfurum liðanna miklar raunir og hugarvíl sem þeir fengu tækifæri til þess að deila með leikmönnum í hálfleiksræðunni.
 
Kristján Pétur Andrésson (5/9 þristar) opnaði 3ja leikhluta með þrist og þar með komst KFÍ í fyrsta sinn yfir í leiknum 53:51! Þetta var gríðarlega sterk og mikilvæg byrjun, enda óx heimamönnum ásmeginn og virtust allir tilbúnari í átök og trúa því að þau væru á jafnræðisgrunni. Vörnin var áfram frekar götótt hjá báðum liðum, sem skiptust á að skora og leiða leikinn næstu tæplega 6 mínuturnar. Þá náðu KFÍ forystu sem þeir létu ekki af hendi, heldur þvert á móti juku jafnt og þétt. KFÍ vann þennan leikhluta 28:24 og staðan því 78:75 fyrir lokaleikhlutann.
 
Ísfirðingar settu í fluggír strax í upphafi fjórða leikhluta og náðu fljótt öruggri forystu 91:78. Kannski væri best á lýsa því svo að Craig hafi gengið berserksgang þar sem hann virtist á köflum vera í einhverjum Goða-ham, sem var torvelt að stöðva á löglegan hátt. Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir gestanna, kom allt fyrir ekki og KFÍ hélt öruggri forystu til loka leik. KFÍ vann þennan fjórðung 32:28 og lokatölur leiks því 110:103 í vafalítið sætum heimasigri.
 
Maður leiksins var Craig Schoen að öllum öðrum ólöstuðum. Hann sýndi í gær sparihliðarnar og var mikill leiðtogi innan sem utanvallar og endaði með 40 í framlagsstuðul. Gældi við þrefalda tvennu, og 27 stig, 10 fráköst, 9 stoðsendingar og 6 stolna bolta segja allt sem segja þarf! Liðsheildin var góð og deildu þeir Ari, Kristján, Siggi og Jón Hrafn vel byrgðunum ásamt öllum hinum. Jón Hrafn átti sinn besta leik á þessu tímabili og virðist vera vaxandi eins og margir aðrir hjá Pétri.
 
Breiðablik er með 8 stig eftir 7 leiki og í fjórða til sjötta sæti ásamt ÍG og Hamar. Efstu 5-6 liðin í deildinni virðast tiltölulega jöfn og geta öll sigrað hvert annað á góðum degi (eða slæmum eftir atvikum). Gruna að Breiðablik komist í úrslitakeppni deildarinnar og verða þeir til alls líklegir. Í kvöld voru bestir í þeirra liði Þorsteinn, Atli og Hraunar. Breiðablik vann frákastakeppnina sannfærandi í kvöld 47 á móti 35, en þeir eru vafalaust ekki jafn ánægðir með „yfirburðina“ sem þeir voru með í töpuðum boltum eða 23 á móti 11.
 
Breiðablik: Þorsteinn Gunnlaugsson 20/23 fráköst!!! og 4 stoðsendingar, Atli Örn Gunnarsson 20/11 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 20, Arnar Pétursson 11, Snorri Hrafnkelsson 10/4 fráköst, Rúnar Pálmarsson 9/3 stoðsendingar, Ægir Hreinn Bjarnason 9, Sigmar Logi Björnsson 4.
 
KFÍ: Craig Schoen 27/10 fráköst/9 stoðsendingar/6 stolnir, Ari Gylfason 26/4 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 23/5 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 19/8 fráköst/5 stoðsendingar/3 stolnir, Sigurður Hafþórsson 12/5 fráköst, Sævar Vignisson 2, Leó Sigurðsson 1.
Dómarar: Björn Leósson og Davíð Tómas Tómasson.
 
Texti og mynd: Helgi Kr. Sigmundsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -