spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Fyrsti Valssigurinn í hús

Umfjöllun: Fyrsti Valssigurinn í hús

Fyrsti sigur Vals á tímabilinu er kominn í hús. Valur lagði í kvöld Hamar í Lengjubikar karla og voru lokatölur 105-90 Valsmönnum í vil þar sem Igor Tratnik átti stóran leik fyrir Valsmenn. Að sama skapi var Brandon Cotton skeinuhættur í liði Hamars.
 
 
Hannes Birgir Hjálmarsson ritaði ítarlega leiklýsingu frá Hlíðarenda í kvöld:
 
Hamar hefja leikinn á svæðisvörn og Valsmenn ætla greinilega að spila hraðan bolta, láta boltann ganga vel og uppskera góðar körfur m. a. rosalega troðslu Darnell Hugee yfir Ragnar Nathanaelsson, staðan 12-5 eftir 2:30. Liðin skiptast á að skora en Valsliðið er áfram í bílstjórasætinu og Igor Tratnik treður eftir "alley-oop" sendingu frá Hamid Dicko en Igor hefur skorað 14 stig eftir 6 mínútna leik og staðan 22-14 fyrir Val þegar Hamarsmenn taka leikhlé. Valsmenn setja strax þrist eftir leikhléð og ná 11 stiga forskoti 25-14. Valsliðið hættir að spila saman og Hamarsmenn skora 9 stig gegn 6 síðustu mínúturnar, staðan 31-23. Valsmenn hafa verið mun betri í leiknum utan síðustu mínútur fjórðungsins þegar einstaklingsframtakið bar liðsheildina ofurliði.
 
 
Liðin skiptast á að skora fyrstu mínúturnar en Hamarsmenn eru fyrri til og minnka muninn í 6 stig 35-29 eftir 3 mínútur en þá koma Valsmenn með áhlaup og skora tvær körfur í röð og ná á ný tveggja stafa forskoti 39-29. Hamarsliðinu gegnur illa að finna glufur á Valsvörninni og forskot Valsmanna eykst þangað til Brandon Cotton skorar tvær körfur í röð og minnkar muninn í 12 stig 46-34 þegar 3:34 eru eftir af fyrri hálfleik. Cotton er að halda Hamri inni í leiknum en hann hefur skorað 23 stig þegar 2:28 eru eftir. Igor Valsmaður er jafn honum í stigaskori, staðan 50-40 þegar 2 mínútur eru eftir. Þegar 1 mínúta er eftir eru Valsmenn með 14 stiga forskot 56-42. Valsmenn náðu að stela nokkrum boltum í síðari hluta fjórðungsins og fá auðveldar körfur. Staðan í hálfleik 58-44 fyrir Val. Valsliðið virkar sterkara en Hamarsliðið sem virðist ætla Cotton að skora í hverri sókn, hinsvegar hefur Valur spilað vel saman í sókninni utan síðustu mínútur fyrsta fjórðungs og leiða verðskuldað í hálfleik.
 
Valsliðið mætir ákveðið til leiks og eftir 1:30 mínútur af þriðja fjórðungi er staðan orðin 64-48 og Valsliðið virðist geta skorað af vild. Ragnar Nathanaelsson blokkar Hugee í hraðaupphlaupi og hleypir smá krafti í Hamarsliðið sem skorar tvær körfur í röð, annað þristur frá Halldóri Jónssyni og staðan 64-53 þegar 6:20 eru eftir af fjórðungnum. Hugee brýtur á Cotton í hraðaupphlaupi og fær sína fjórðu villu en Cotton skorar tvö stig og víti að auki og munurinn aðeins 8 stig 66-58. Igor Tratnik heldur uppteknum hætti, nær sóknarfrákasti og skorar og munurinn aftur 10 stig þegar fjórðungurinn er hálfnaður og Igor kominn með 29 stig. Valsmenn taka leikhlé í stöðunni 68-60 og 4:27 eftir af fjórðungnum. Hamarsmenn brjóta mikið af sér og Valsmenn fá skotrétt þegar 4 mínútur eru eftir af leikhlutanum. Garrison Johnson setur tvö bónusvíti og tvö víti að auki eftir að tæknivilla er dæmd á Kirkman í liði Hamars, staðan 77-60 og 3 mínútur eftir. Allt stefnir í auðveldan sigur Valsliðsins. Hamarsmenn klóra aðeins í bakkann með nokkrum körfum frá Halldóri Jónssyni og ná að minnka muninn í 11 stig að nýju, staðan 82-71 þegar lokaleikhlutinn er eftir. Valsliðið hefur haldið forystunni allan leikinn og Igor Tratnik virðist geta skorað að vild hjá Valsliðinu en hægar hefur farið um Cotton í Hamarsliðinun en hann hefur þó skorað 33 stig til þessa í leiknum.
 
Cotton hefur fjórða leikhluta á að sækja að Valskörfunni og Hugee brýtur á honum og fær sýna 5 villu og verður því að yfirgefa völlinn. Ragnar Nathanaelsson brýtur á Garrison Johnson og fær sína fjórðu villu. Bæði lið gera sig sek um mistök í upphafi fjórða leikhluta og tapa boltanum á víxl en Valur leiðir 86-73 þegar 2 mínútur eru liðnar af fjórðungnum. Frekar lítið gerist fram að sjöttu mínútu hálfleiksins þegar Valsmenn stela boltanum nokkrum sinnum og komast í 96-79 þegar 3:30 eru eftir. Góður kafli hjá Valsliðinu sem er hreinlega að spila hraðari bolta en Hamarsliðið ræður við. Ragnar Gylfason fær dæmda á sig sóknarvillu og í kjölfarið tæknivillu, Halldór Jónsson setur annað tæknitítið og staðan 96-80. Ragnar Nathanaelsson fær sína 5 villu þegar 2:40 eru eftir og fer af velli. Valssigur er orðinn staðreynd, liðin skora til skiptis og Valur nær 100 stigum þegar 1 mínúta er eftir, öruggur Valsigur í höfn, lokatölur 105-90 og Valsmenn fagna sínum fyrsta sigri í vetur gífurlega.
 
Valur var allan tíman sterkara liðið og má segja að sigurinn hafi aldrei verið í hættu, liðið leiddi allan leikinn. Igor Tratnik var maður leiksins með 37 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar en Valsliðið spilaði vel saman mestallan leikinn og uppskar eftir því. Cotton var stigahæstur hjá Hamarsmönnum með 39 sitig en hvort hann vantaði meiri hjálp frá samherjum eða að hann reyni of mikið upp á eigin spýtur er erfitt að segja en einhvernveginn virtist hann þurfa að hafa miklu meira fyrir sínum stigum en Igor í Valsliðinu. Halldór Jónsson sýndi flottan leik sérstaklega í síðari hálfleik fyrir Hamar.
 
 
Stigaskor:
 
Valur: Igor Tratnik 37/12 fráköst/3 varin skot, Garrison Johnson 26/5 fráköst, Kristinn Ólafsson 11, Darnell Hugee 11/3 varin skot, Hamid Dicko 6/8 stoðsendingar, Ragnar Gylfason 5/5 stoðsendingar, Birgir Björn Pétursson 4/4 fráköst, Austin Magnus Bracey 2, Alexander Dungal 2/5 fráköst, Ágúst Hilmar Dearborn 1, Benedikt Blöndal 0, Bergur Ástráðsson 0.
 
Hamar: Brandon Cotton 39/5 stoðsendingar, Halldór Gunnar Jónsson 16, Bjarni Rúnar Lárusson 11/5 fráköst, Svavar Páll Pálsson 6/4 fráköst, Ragnar Á. Nathanaelsson 6/5 varin skot, Bjartmar Halldórsson 5/5 stoðsendingar, Stefán Halldórsson 3/9 stoðsendingar, Louie Arron Kirkman 2, Eyþór Heimisson 2, Kristinn Hólm Runólfsson 0, Emil F. Þorvaldsson 0, Mikael Rúnar Kristjánsson 0.
 
Hannes BirgirHjálmarsson / Vodafone höllininni að Hlíðarenda 
Fréttir
- Auglýsing -