spot_img
HomeFréttirIceland Express deild karla: Uppgjör sjöundu umferðar

Iceland Express deild karla: Uppgjör sjöundu umferðar

Sjö umferðum er lokið í Iceland Express deild karla og hefst sú áttunda fimmtudagin 8. desember þar sem lokaúrslit Lengjubikarsins fara fram næsta föstudag og laugardag. Eftir sjö umferðir í úrvalsdeild karla eru Grindvíkingar ósigraðir á toppnum eftir að hafa niðurlægt KR í DHL-Höllinni. Charlie Parker mætti með flautukörfu aðra umferðina í röð fyrir Keflvíkinga og ekki fannst Valssigur þessa umferðina.
Úrslit umferðarinnar:
 
Þór Þorlákshöfn 82-68 Fjölnir
Snæfell 113-115 Keflavík
Njarðvík 105-98 Stjarnan
Haukar 74-80 Tindastóll
KR 59-85 Grindavík
Valur 85-92 ÍR
 
Staðan í deildinni:
 
Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Grindavík 7/0 14
2. Stjarnan 5/2 10
3. Keflavík 5/2 10
4. KR 4/3 8
5. Þór Þorlákshöfn 4/3 8
6. Njarðvík 4/3 8
7. ÍR 4/3 8
8. Snæfell 3/4 6
9. Fjölnir 3/4 6
10. Tindastóll 2/5 4
11. Haukar 1/6 2
12. Valur 0/7 0
 
 
Þór Þorlákshöfn 82-68 Fjölnir
Árni Ragnarsson og Ægir Þór Steinarsson voru ekki með Fjölnismönnum í leiknum og því ljóst að um þungan róður yrði að ræða hjá Grafarvogspiltum. Fjórir leikmenn Þórs gerðu 14 stig eða meira í leiknum en Calvin O´Neal var atkvæðamestur hjá Fjölni með 23 stig. Sterkur heimavöllur hjá Þór og verður ekki auðvelt að sækja stig í Icleandic Glacial Höllinni í vetur.
 
Snæfell 113-115 Keflavík
Charles Parker með flautukörfu fyrir Keflavík aðra umferðina í röð, tveir dramatískir sigrar og fjögur stig í sarpinn hjá Keflavík með samtals 3 stigum í sigur í tveimur leikjum, fyrst gegn Þór Þorlákshöfn 93-92 og svo gegn Snæfell 113-115. Parker splæsti í 45 framlagsstig, 34 stig og 16 fráköst. Quincy Hankins-Cole gerði 26 stig og tók 11 fráköst hjá Snæfell en þetta var leikur þar sem hvert risaskotið á fætur öðru leit dagsins ljós en Parker átti lokaorðið – hr. kúpling (mr. Clutch).
 
Njarðvík 105-98 Stjarnan
Cameron Echols og Elvar Friðriksson áttu glimrandi dag með grænum sem undirstrikuðu að þeir ætli sér ekkert að horfa á deildina í vetur heldur taka fullan þátt. Maciej Baginski átti einnig flotta frammistöðu í liði grænna með 13 stig, 16 ára krafthúsakappi hér á ferðinni. Justin Shouse hélt Stjörnunni á floti og með Jovan enn í meiðslum hefur Keith Cothran ekki tekist að bæta við sig snúning sem Stjarnan þarf svo nauðsynlega á að halda. Þrátt fyrir fjarveru Jovans eru Garðbæingar engu að síður í 2. sæti deildarinnar og mun róðurinn aðeins þyngjast ef ekki fjölgar á leikskýrslunni hjá þeim.
 
Haukar 74-80 Tindastóll
Eru Stólarnir að komast í gang? Skagfirðingar virðast oftar en ekki vita hvaðan á sig stendur veðrið fyrr en eftir áramót og bíta þá oft hressilega frá sér. Óhætt að segja að sigurinn í Hafnarfirði hafi verið fjögurra stiga virði í leik þar sem Christopher Smith gerði einungis 7 stig í liði Hauka, algerlega óviðunandi frammistaða og Haukar í fallsæti um þessar mundir. Að sama skapi mega Skagfirðingar setja meiri kröfur á leikmenn eins og Helga Rafn Viggósson, Þröst Leó Jóhannsson, Friðrik Hreinsson, Helga Frey Margeirsson og Svavar Atla Birgisson. Allir upptaldir eru sterkir, reynslumiklir leikmenn og það verður ekkert úr tímabilinu hjá Stólnum fyrr en þessir kappar spýta í lófana.
 
KR 59-85 Grindavík
Vonbrigði umferðarinanr, fólk fékk aldrei þann toppslag sem búist var við. KR mætti ekki til leiks en Grindvíkingar léku á als oddi. Vart veikur punktur í vörn og sókn hjá gulum og röndóttir voru ráðalausir gegn þríhyrningssókn Helga Jónasar og félaga. Finnur Atli Magnússon var eini með ráði í liði KR í leiknum sem hafa ekki skorað jafn lítið á heimavelli í úrvalsdeild síðan 2005. KR-ingar geta þó glaðst, þeir náðu botninum í þessari umferð og leiðin liggur bara upp á við eftir þetta. Grindvíkingar eru liðið til að vinna ef einhverjir aðrir hafa áhuga á því að vinna til eins af þeim fjórum bikurum sem eru í boði, Lengjan, Poweradebikar, Deildarmeistari og Íslandsmeistari.
 
Valur 85-92 ÍR
Enn stigalaust að Hlíðarenda, ekki öfundsverð staða hjá liði sem komst upp í úrvalsdeild eftir sjö ára veru í 1. deild. Valsmenn eru reyndar búnir að finna fyrsta sigurinn, það var í Lengjubikar karla og gegn fyrstudeildarliði Hamars. Hvað sá sigur gerir fyrir liði skal ósagt látið en næst á dagskrá er botnslagur Hauka og Vals í deildinni, mikilvægasti leikur Vals til þessa, próf sem þeir mega ekki falla á! ÍR var í raun komið með unnin leik að Hlíðarenda og sigurinn var ekki í hættu þó Valur hefði unnið fjórða leikhluta 32-13.
 
Tölfræðileiðtogar deildarinnar
 
Stig
1. Darrin Govens – Þór Þorlákshöfn 27,14
2. Nemanja Sovic – ÍR – 25,14
3. Cameron Echols – Njarðvík – 22,86
4. James Bartolotta – ÍR – 22,83
5. David Tairu – KR – 21,43
 
Stoðsendingar
1. Marquis Hall – Snæfell – 8,25
2. Justin Shouse – Stjarnan – 6,86
3. Giordan Watson – Grindavík – 6,29
4. Pálmi Freyr Sigurgeirsson – Snæfell – 5,14
5. Edward Lee Horton Jr. – KR – 5,00
 
Fráköst
1. Quincy Hankins-Cole – Snæfell – 13,43
2. Mike Ringgold – Þór Þorlákshöfn – 12,29
3. Cameron Echols – Njarðvík – 12,14
4. Jovanni Shuler – Haukar – 11,14
5. Nathan Walkup – Fjölnir – 10,86
 
Framlag
1. Quincy Hankins-Cole – Snæfell – 26,71
2. Darrin Govens – Þór Þorlákshöfn – 25,86
3. Nemanja Sovic – ÍR – 24,57
4. Cameron Echols – Njarðvík – 24,43
5. Jovanni Shuler – Haukar – 24,29
 
Stolnir boltar
1. Travis Holmes – Njarðvík – 3,29
2. Keith Cothran – Stjarnan – 3,00
3. Charles Parker – Keflavík – 2,86
4. Justin Shouse – Stjarnan – 2,71
5. Jovanni Shuler – Haukar – 2,43
 
Varin skot
1. Christopher Smith – Haukar – 4,75
2. Darnell Hugee – Valur – 2,29
3. Igor Tratnik – Valur – 1,71
4. Jón Ólafur Jónsson – Snæfell – 1,57
5. Finnur Atli Magnússon – KR – 1,29
 
Næsta umferð
8. desember, heil umferð:
 
Keflavík-Njarðvík
Fjölnir-Snæfell
Grindavík-Þór Þorlákshöfn
Tindastóll-KR
Valur-Haukar
ÍR-Stjarnan
 
Mynd/ [email protected] Grindvíkingar þakka áhorfendum stuðninginn í DHL-Höllinni í síðustu umferð.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -