Bandaríski leikmaðurinn David Tairu hefur verið leystur frá störfum hjá KR í Iceland Express deild karla. Þetta staðfesti Böðvar Guðjónsson formaður KKD KR í samtali við Karfan.is í dag. ,,Það kemur nýr maður í hans stað og leitin stendur yfir, það eru einhver nöfn komin upp á borð og verið að vinna í þeim,“ sagði Böðvar.
Böðvar sagði einnig að ljóst væri að mistök hefðu verið gerð í sumar við val á erlendum leikmönnum. ,,Nú er búið að leiðrétta þau en Tairu er duglegur strákur en hentar því miður KR ekki en nú leitum við að manni í framherjastöðuna.“
Karfan.is setti sig einnig í samband við Hrafn Kristjánsson þjálfara liðsins:
Tairu var á allan hátt til fyrirmyndar hjá okkur, duglegur og ósérhlífinn. Hann hefur skilað fínasta verki fyrir liðið en nú þegar línur eru að skýrast sýnist okkur sem svo að það sé annars konar leikmaður sem gerir liðið reiðubúið til titlabaráttu. Við erum á einhvern hátt að breyta liðsmyndinni með þessum gjörningi. Á þessum tímapunkti erum við ekki komnir með mann en leitum í rólegheitunum, hvort hann verði kominn fyrir hátíðar er vandi um að spá.