Valur stöðvaði sigurgöngu Hauka í IE-deild kvenna í kvöld, 79-83, framlengja þurfti leikinn til að skera úr um sigurvegara. Haukar höfðu fram að þessu unnið fimm leiki í röð og sex úr síðustu sjö leikjum en Valsstúlkur hafa nú sigrað tvo leiki í röð og spurning hvort að liðið sé vaknað af værum blundi eftir brösótt gengi í upphafi leiktíðar. Skíta kuldi var í Schenkerhöllinni í kvöld og má auðveldlega segja að úlpuklæddir áhorfendur hafi vorkennt leikmönnum að þurfa að klæðast stuttbuxum og hlýrabolum svo kalt var í húsinu.
Haukar byrjuðu ekki vel og Valur náði með góðri vörn og öflugri sókn að komast í 6-13 með Melissu Leichlitner í fararbroddi. Haukar voru alls ekki að finna sig og skoruðu aðeins sex stig á fyrstu sex mínútunum leiksins og voru kærulausar í sókninni. Þrátt fyrir mikinn kulda í Schenkerhöllinni í kvöld gátu Haukar ekki falið sig á bakvið hann en leikur þeirra gjörsamlega fraus og Valur nýtti sér slaka vörn Hauka á þessum kafla. Jance Rhoads var allt í öllu í sókn Hauka sem var ekki upp á marga fiska í fyrsta leikhluta. Valsstúkur spiluðu á sama tíma góða vörn og voru að nýta sóknir sínar vel og staðan eftir fyrsta leikhluta 10-24.
Sama gekk á allan annan fjórðung og náðu gestirnir að keyra muninn upp í 18-37. Valur var einfaldlega mun betri og var ekki að sjá að þær séu í neðri hluta deildarinnar. Hope Elam virtist vera sú eina í liði Hauka sem ekki lét kuldann á sig fá. Valur leiddi með 16 stigum í hálfeik, 29-45.
Ræða Bjarna Magnússonar þjálfara Hauka hefur greinilega haft áhrif á Haukaliðið því að það var allt annað að sjá til þeirra í upphafi seinni hálfleiks. Heimastúlkur minnkuðu muninn niður í átta stig með mun betri vörn og betri nýtingu í sóknarleiknum. Liðin skiptust á körfum og loksins var þetta orðið hörku leikur eins og fyrirfram var búist við. Valsstúlkur héldu áfram að spila vel og voru að hitta í sókninni en á sama tíma voru Haukar að finna leiðina að körfu þeirra nokkuð auðveldlega. Munurinn á liðinum eftir þriðja leikhluta var 10 stig, 52-62 fyrir Val.
Haukar byrjuðu aftur af krafti í upphafi fjórða leikhluta og minnkuðu muninn niður í þrjú stig. Valsstúlkur náðu að keyra muninn aftur upp í átta en með seiglu minnkuðu Haukar muninn aftur niður í þrjú stig. Þegar að 16 sekúndur lifðu leiks var munurinn aðeins eitt stig á liðunum og Kristrún Sigurjónsdóttir fékk tvö vítaskot sem hún nýtti. Haukar héldu til sóknar og freistuðu þess að jafna leikinn áður en leiktímanum lauk. Boltinn rataði í hendurnar á Margréti Rósu Hálfdanardóttur sem smellti niður þriggja stiga körfu þegar þrjár sekúndur voru eftir og jafnaði leikinn, 77-77, og grípa þurfti til framlengingar.
Gestirnir frá Hlíðarenda voru betri aðilinn í framlengingunni en mjög lítið var skoðað í henni. Haukaliðið skoraði til að mynda aðeins tvö stig á móti sex Vals og það var fyrr um Haukastúlkan, Guðbjörg Sverrisdóttir, sem innsiglaði sigur Vals með þriggja stiga körfu í stöðunni 79-80. Haukar höfðu aðeins fjórar sekúndur til að jafna leikinn sem að dugði ekki og Valur vann 79-83.
Melissa Leichlitner var best Valskvenna en hún gerði 26 stig, tók 7 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Kristrún Sigurjónsdóttir var langt frá sínu besta í fyrri hálfleik en óx ás megin í þeim seinn og var með 15 stig og María Björnsdóttir gerði 12 stig.
Hjá Haukum var Hope Elam með 31 stig og 13 fráköst auk þess sem að hún varði þrjú skot. Margrét Rósa Hálfdanardóttir og Jance Rhoads skoruðu hvorar um sig 17 stig.