Fátt virðist geta stöðvað Helenu Sverrisdóttur og Good Angels heimafyrir í úrvalsdeildinni í Slóvakíu en liðið hefur unnið alla tíu deildarleiki sína til þessa en þó hefur einu sinni litlu mátt muna þegar toppslagurinn gegn MBK Ruzomb fór fram. Englarnir mörðu þó sigur 65-64 en úrslit annarra leikja eru vart undir 30 stiga sigrum hjá liðinu.
Good Angels völtuðu yfir Cassovia um helgina, 107-36 sigur en tölfræði leiksins er ekki enn orðin aðgengileg. Í leiknum þar á undan var einnig um stórsigur Good Angels að ræða þar sem Helena gerði 29 stig.
Í meistaradeild Evrópu eru Good Angels í 5. sæti um þessar mundir í átta liða riðli. Næsti leikur liðsins í keppninni er á fimmtudag 8. desember þegar Englarnir heimsækja Rivas Ecopolis.