spot_img
HomeFréttirShuler óskaði eftir lausn undan samningi, Fain kemur í hans stað

Shuler óskaði eftir lausn undan samningi, Fain kemur í hans stað

Jovanni Shuler óskaði eftir lausn undan samningi hjá Haukum í IE-deild karla hafa Haukar fundið eftirmann hans. Sá heitir Hayward Fain og lék með Tindastóli á síðustu leiktíð.
 
Þetta kemur fram á www.haukar.is
 
Pétur Rúðrik Guðmundsson, þjálfari Hauka, segir í spjalli við heimasíðu Hauka að Fain sé fjölhæfur leikmaður sem leggur sig fram og vonar að koma hans muni gefa þeim aukna möguleika á vellinum.
 
„Fyrir um viku síðan ákvað Jovanni Schuler að hann vildi yfirgefa liðið og hverjar sem ástæðurnar eru
þá er ekki farsælt að reyna að halda í leikmenn sem vilja fara út. Þannig að við hófum leit af
eftirmanni hans. Eftir miklar þreifingar var ákveðið að fá til liðs við okkur Hayward Fain sem spilaði
með Tindastóli síðasta keppnistímabili,“ sagði Pétur.
 
„Ég man sjálfur eftir að hafa spilað á móti Fain sem aðstoðarþjálfari og þetta er hörkuleikmaður.
Hann virkaði þá á mig sem mikill keppnismaður og góður liðsmaður sem leggur sig allan fram í leikinn. Hann er mjög fjölhæfur leikmaður sem getur spilað flest allar stöður á vellinum bæði í vörn og sókn.“
 
Pétur segir að vegna þess hve margar stöður á vellinum Fain getur leyst muni það gefa Haukaliðinu aukna möguleika í þeirra leik og að framundan sé að koma Fain inn í Haukamenninguna.
 
„Það að fá Fain mun gefa okkur aukna möguleika í leik okkar sem ég er mjög ánægður með. Framundan eru mikilvægir leikir í bæði deild og bikar, þó að áherslan sé núna á næsta leik sem að er gegn Val enda er sá leikur gríðarlega mikilvægur fyrir okkur. Næstu æfingar verða notaðar til að koma Hayward inn í kerfin okkar og leyfa honum að kynnast strákunum og þeirri menningu sem við höfum í Haukunum. Ég er mjög ánægður með að hafa fengið svona öflugan leikmann til okkar og er sannfærður um að hann muni hjálpa okkur að snúa þróuninni við og skila okkur sigrum,“ sagði Pétur að lokum.
 
Hjá Tindastóli var Hayward Fain að skila 20 stigum í leik, 9,8 fráköstum og 4,2 stoðsendingum í leik að meðaltali.
Fréttir
- Auglýsing -