Keflavíkurstúlkur geta þakkað Jaleesu Butler fyrir sinn þátt í því að koma liðinu aftur á sigurbraut og um leið aftur í toppsætið eftir að Haukar mættu í Toyotahöllina í kvöld. Lokastaða kvöldsins 73:62 segir lítið um gang leiksins því Haukar voru yfir nánast allan leikinn og leikurinn hnífjafn fram á síðustu 2 mínútur leiksins en þá virtust Haukar fara í lás og Keflavík kláraði leikinn.
Keflavíkurstúlkur byrjuðu leikinn með fyrstu körfu leiksins strax eftir uppkastið og virtist vera hugur í þeim. En Haukastúlkur voru einnig grimmar og ætluðu að selja sig dýrt. Staðan var 24:19 eftir fyrsta leikhluta og líkast til hefði hann verið meiri ef ekki hefði verið fyrir Hope Elam sem var við suðumark og hafði þá þegar gert 15 stig fyrir gestina. Reyndar má gagnrýna varnarleik heimamanna því Elam fékk hvert skotið á fætur öðru algerlega óáreytt.
Og Haukar voru ekki hættir heldur gáfu þær í, pressuðu stíft bakverði Keflavíkur sem áttu í mesta basli með að stilla upp sóknarleiknum. Fyrir vikið var sóknarleikur Keflavíkur afar einfaldur og skoruðu þær aðeins 9 stig í leikhlutanum. Auðveld bráð fyrir fastan og sterkan varnarleik gestanna.
Keflavík komu sterkar til leiks í seinni hálfleik og það var algerlega augljóst að þetta kvöldið yrði það varnarleikur sem myndi vinna leikinn að lokum. Vandræði urðu hjá Keflavík þegar Pálína Gunnlaugsdóttir fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta, en fram að þessu hafði bekkurinn hjá Keflavík skilað afar litlu. En án Pálínu börðust Keflvíkingar vel og náðu að minnka muninn fyrir síðasta leikhlutann í 2 stig fyrir lokaleikhlutann.
Leikurinn var í raun í járnum allt fram á síðustu 3 mínúturnar þá fóru Keflavík hægt og bítandi að slíta sig frá Haukum og þarna var Jaleesa Butler að gefa stoðsendingar taka sóknarfráköst ásamt því að skora mikilvæg stig. Helga Hallgrímsdóttir átti einnig fínar rispur og skoraði mikilvægar körfur á lokakaflanum. Niðurstaðan var Keflavíkursigur og sumir myndu kalla þetta að stela sigrinum en Keflavík fær vissulega prik fyrir að halda haus og klára leikinn gegn sterku Haukaliði.
Viðtöl á Karfan TV