FSU og KFÍ mættust í gærkvöld í 32 liða úrslitum Poweradebikarsins. KFÍ hefur átt góðu gengi að fagna í vetur og eru ósigraðir (9:0) í 1. deildinni. FSU eru heldur neðar á töflunni með 4 stig (2:6). Þessi lið mættust einmitt í deildinni 21. október á heimavelli FSU, Iðu og þá náðu KFÍ menn að sigra í spennandi leik þar sem úrslit réðust á lokamínútunum.
Eins og allir eiga að vita er bikakeppnin allt önnur Ella en deildarkeppnin og áttu einmitt flestir von á spennandi leik í gær. Það kom nú ekki á daginn að þessu sinni, því leikurinn var einstefna frá upphafi til enda. KFÍ voru mjög skipulagðir í varnarleik sínum og staðan eftir fyrsta leikhluta var 25:10 og sama var í boði í öðrum leikhluta. FSU áttu mjög erfitt uppdráttar gegn heimamönnum og ef til vill sat rútuferðin í þeim? Í hálfleik var staðan 44:22 og ljóst að mikið þurfti að breytast í leik liðanna ef eitthvað annað en heimasigur átti að líta dagsins ljós.
Ekki er ástæða til þess að hafa of mörg orð um þriðja leikhluta, enda héldu ófarir Sunnlendinga áfram og KFÍ sigraði í þessum fjórðungi 31:10. Staðan fyrir lokaleikhlutann var því 75:32 og úrslitin auðvitað ráðin. Hetjuleg barátta gestanna í lokaleikhlutanum sem leikandi þjálfari liðsins leiddi, skilaði þeim sigri í þeim fjórðungi 11:20. Lokatölur því 86:52 í lítt spennandi leik, þar sem heimamenn höfðu tögl og haldir frá upphafi til loka eins og fyrr sagði.
Það var firnasterk vörn KFÍ sem landaði sigrinum að þessu sinni og FSu átti fá svör við henni. Erfitt að taka einhvern út hjá liðunum að þessu sinni. Edin átti góðan leik og setti 19 stig á gestina og reif niður 11. fráköst. Einnig er rétt að nefna Ara G. sem skilaði 18 stigum í hús og er hann að ná nokkuð góðum stöðugleika í leik sínum. Hlynur leysti Craig af hólmi á drjúgum kafla í leiknum og átti fína innkomu, efnilegur ungur leikstjórnandi þar á ferð.
FSU er með skemmtilega leikmenn innanborðs en það verður að viðurkennast að oft hafa þeir notið sín betur en í gærkvöld. Rétt er að hrósa Kjartani en það vita auðvitað allir sem fylgst hafa með íslenskum körfuknattleik hversu mikill baráttumaður hann er og hann sýndi það svo sannarlega í kvöld með 20 stigum og þar af 13 í lokaleikhlutanum. FSU er með ungt lið og marga efnilega leikmenn sem vert er að fylgjast með á næstunni eins og t.d. þá Sæmund Valdimarsson og Svavar Stefánsson.
FSU: Kjartan Kjartansson 20/9 fráköst, Sæmundur Valdimarsson 12/8 fráköst, Orri Jónsson 7, Bjarni Bjarnason 5/7 fráköst, Birkir Víðisson 3, Daníel Kolbeinsson 2, Eggert Guðlaugsson 2, Þorkell Bjarnason 1/6 fráköst, Svavar Stefánsson 0 stig/7 fráköst.
KFÍ: Edin Suljic 19/11 fráköst, Ari Gylfason 18, Kristján Pétur Andrésson 12, Chris Miller-Williams 10/8 fráköst, Sigurður Hafþórsson 9, Jón Hrafn Baldvinsson 6/11 fráköst, Craig Schoen 5/10 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 5/3 fráköst, Sævar Vignisson 2.
Dómarar: Georg Andersen og Jón Bender.
Texti og mynd: Helgi Kr. Sigmundsson