Um hverja páska hefur SBBK haldið Scania Cup mótið í bænum Södertaalje í Svíþjóð. Næsta mót verður haldið daganna 5.-8. apríl 2012. Scania Cup er boðsmót og er það stefna mótshaldara að bjóða aðeins bestu félagsliðum Norðurlanda á mótið. Í vor verður keppt í eftirtöldum 12 aldursflokkum drengja og stúlkna: 1994-1995, 1996, 1997, 1998, 1999 og 2000. Mótið hefur marga kosti. Hvert lið fær marga leiki, leikir eru langir (4*8 mín. og klukka stöðvuð), andstæðingar eru góðir, dómgæsla er góð (flestir leikir eru dæmdir af þremur dómurum) og svo framvegis.
Íslensk lið hafa verið dugleg að mæta á þetta mót í gegnum tíðina. Á síðasta móti voru tvö íslensk strákalið (Stjarnan 1995 og 1996) og stóðu þau sig mjög vel.
Fyrir stuttu sendi stjóri mótsins (Erik Lindell) þeim íslenskum liðum, sem stóðu sig vel í úrslitum Íslandsmótsins síðasta vor boð um þátttöku í næsta móti. Þjálfarar og forsvarsmenn þeirra liða sem eiga að fá boð, eru beðin um að hafa samband við Stefán Arnarson ([email protected]) ef boðið frá Erik misferst og þau hafa áhuga á því að fara á mótið. Önnur íslensk lið sem hafa áhuga á því að fara á mótið og fá ekki boð í fyrstu umferð geta haft samband við Stefán og hann mun ræða við mótstjórann og aðra aðila um möguleika þessara liða á því að fá boð.
Þau lið sem koma til með að fara á mótið geta síðan haft samband við Erik og hann mun sjá um mest allt varðandi keppnisferðina, nema að bóka flug til Stokkhólms.