Finnur Freyr Stefánsson er hættur sem yfirþjálfari yngri flokka KR en staðan kallaði á stöðugt meiri tíma við skrifborðið og það kunni Finnur ekki að meta. Þá hefur meistaraflokksþjálfunin togað og sagði Finnur í samtali við Karfan.is að það væri næsta rökrétta skref hjá honum á þjálfaraferlinum.
Af hverju hættir þú sem yfirþjálfari yngri flokka KR?
,,Það er nú nokkuð margt sem spilar þar inní enda ekki auðveld ákvörðun að taka. Mér fannst ég vera að festast meir og meir bakvið skrifborðið í stað þess að eyða tímanum og orkunni á parketinu. Það virðist oft verða með þessar yfirþjálfarastöður að þær þróist útí skrifstofustarf þar sem stærsti hlutur tímans fer í allskyns verkefni sem eru þjálfun óviðkomandi. Ég lít á mig fyrst og fremst sem körfuknattleiksþjálfara og mér líður best á parketinu. Þannig var ég farinn að finna að þau verkefni og vinna sem fylgdu yfirþjálfarastöðunni voru farin að koma niður á þjálfuninni á þessum fimm flokkum sem ég er með hjá KR. Það eru þó vissulega fleiri ástæður sem liggja á bakvið þessa ákvörðun en aðalatriðið er að ég tel þetta vera það rétta í stöðunni.“
Hvernig verður framhaldið hjá þér?
,,Framhaldið hjá mér er að ég mun halda áfram þjálfun þessara hópa sem ég er með í yngri flokkum KR en verð núna bara ,,óbreyttur“ þjálfari í stað þess að vera með umsjón yfir öllu starfinu. Þetta eru skemmtileg verkefni sem eru framundan enda er maður svo lánsamur að þjálfa fjöldan allan af hæfileikaríkum og metnaðarfullum leikmönnum. Framtíðin er björt hjá KR þar sem það er stutt í að fleiri ungir strákar fari að feta í fótspor leikmanna eins og Martins Hermannsonar,“ sagði Finnur en aðspurður um hver tæki við stöðu yfirþjálfara kvaðst hann ekki hafa vitneskju um það.
Hver er stefnan hjá þér í þjálfun?
,,Það eru alger forréttindi finnst mér að fá að vinna við sitt aðaláhugamál og ég stefni á að gera það eins lengi og ég get. Ég er búinn að vera viðloðandi þjálfun í KR síðan ég var 16 ára og þetta eru því orðin ansi mörg ár þó ég sé nú ekki gamall að árum. Ég neita því ekki að meistaraflokksþjálfun er farin að heilla ansi mikið enda kannski rökrétt skref fyrir mig. Maður hefur fundið fyrir áhuga frá öðrum meistaraflokksliðum undanfarin sumur sem er mikill heiður og ég er þakklátur fyrir. Ég ákvað hins vegar að klára þau markmið sem ég hafði sett mér í KR. Þeim markmiðum hefur verið náð og því bara kominn tími til að setja sér ný enda nýtt ár að ganga í garð með nýjum tækifærum.“
Mynd/ [email protected]