Fjölnismenn hafa orðið fyrir enn einni blóðtökunni en nú er ljóst að Árni Ragnarsson verður ekki með næstu tvo mánuðina eða svo. Árni meiddist á öxl milli jóla og nýárs en meiðslin eru ekki ný af nálinni.
,,Ég fékk smá slynk á ölxina á æfingu milli jóla og nýárs en ég hafði verið góður í henni núna í rúmlega sex ár eftir að hafa þjálfað hana upp eftir meiðsli á hverjum degi til margra ára,“ sagði Árni í samtali við Karfan.is.
Árni hefur á tímabilinu verið með 17,0 stig, 5,4 fráköst og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik með Fjölni og verður skarð hans vandfyllt en Fjölnismenn eru um þessar mundir í 6. sæti Iceland Express deildarinnar með 10 stig.
,,Sérfræðingar segja að ég verði kominn á völlinn eftir tvo mánuði í allra besta falli en það gæti hugsanlega orðið lengra. Ég stefni hinsvegar fast að því að ná síðustu fimm deildarleikjunum í mars.“