Valsstúlkur mættu í Hólminn til fundar við Snæfell í Iceland Express deild kvenna en þær ætla að líta þar við á næsta laugardag einnig í Poweradebikarnum. Berglind Gunnarsdóttir var komin í búning hjá Snæfelli og er óðum að braggast. Valsstúlkur voru með viðbót við lið sitt núna eftir áramót en Lacey Katrice Simpson var komin til liðs við þær og Kristín Óladóttir var aftur komin í búning eftir meiðsli.
Byrjunarliðin:
Snæfell: Hildur Björg, Hildur Sigurðard, Kieraah Marlow, Helga Hjördís, Alda Leif.
Valur: Berglind Karen, Guðbjörg Sverrisd, Melissa Leichlitner, Kristrún Sigrjónsd, María Ben.
Fyrsti hluti var jafn og hressandi þar sem Snæfell byrjaði heldur skipulagðari og voru strax komnar yfir 12-6. Valsstúlkur komust þó inní leikinn smátt og smátt og jöfnuðu 16-16 og voru svo komnar yfir 18-25 með flottum leik þar sem þær stálu boltum og börðust fantavel í vörninni en Melissa stal boltanum í þrígang og Valur skoraði úr því. Staðan 26-29 fyrir Val eftir fyrsta hluta.
Valsstúlkur héldu áfram pressu og Snæfellssóknirnar runnu út í sandinn og Valur jók bilið í 26-34. Vörn Vals hélt vel í öðrum hluta þó þær væru ekki að stökkva langt frá í sóknum sínum en heldur minna skor var framan af hlutanum eða 8-2 fyrir Val á 5:00. Snæfellsstúlkur léku þungar sóknir og úrvalsfæri rötuðu ekki niður og staðan varð fljótt 30-41 og Helga Hjördís hjá Snæfelli komin með 4 villur sem var dýrt og einnig nýji leikmaður Vals, Lacey Simpson.Valur hélt sér 10-12 stigum yfir mestan hlutann en staðan í hálfleik var 41-47 fyrir Val.
Hjá Snæfelli var Kieraah Marlow komin með 18 stig og var Vali erfið í teignum. Hildur Björg var næst henni með 8 stig og 8 fráköst. Í liði Vals var Melissa með 12 stig og stjórnaði liðinu vel og var með stolna bolta uppá 5 en næst kom Kristrún Sigurjónsdóttir með 11 stig og María Ben 10 stig.
Í stöðunni 43-51 fyrir Val smellti Alda Leif einum ísköldum úr kælinum í netið 46-51 og Snæfell skellti sér í góðann gír og kláraði sóknir sínar vel. Alda átti svo annan til þegar þær komust yfir 53-52 og leikurinn varð meira spennandi. Pressa Vals var að virka þokkalega en Valur náðu smá forskoti aftur með 9-0 kafla og Hildur Sigurðardóttir fékk dæmda á sig tæknivillu. 54-63 varð staðan og það sem virtist verða að viðsnúningi hjá Snæfelli fauk út á Breiðafjörð. Staðan eftir þriðja hluta 55-68 eftir flautuþrist frá Melissu.
Allt annað Valslið að sjá á nýju ári og greinileg batamerki á leik liðsins. Snæfell átti erfitt með Val undir körfunni sem tóku hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og Snæfellsstúlkur gleymdu alveg því verkfæri að stíga út komnar 15 stigum undir 59-74 og máttu ekki við svona mistökum í fjórða hluta og brekkan orðin meira en 12% halli og farið að minna á hálsana á Barðaströndinni. Þegar staðan var orðin 20 stig 60-80 var lítið eftir til að bjarga Snæfelli þrátt fyrir hetjulega baráttu að reyna að komast inní leikinn en þær klóruðu sig nær 70-83 en Valur sigraði 72-87 og eru komnar á siglingu eftir smá tregðu í sjódæluni en geta klárlega haldið á miðin núna. Vart var við óvandað orðaval í garð leikmanna og dómara í leiknum og verður hér fólki bent á að endilega styðja sitt lið og hvetja það til góðra verka inni á vellinum og eyða orkunni þeim megin og láta neikvæðar raddir lönd og leið.
Snæfell: Kieraah Marlow 26/4 frák. Hildur Sigurðardóttir 15/8 frák/4 stoðs. Hildur Björg Kjartansdóttir 10/11 frák. Alda Leif Jónsdóttir 8/4 stoðs. Björg Guðrún 4/3 frák/3 stoðs. Helga Hjördís 4/3 frák. Ellen Alfa 3. Berglind Gunnars 2. Rósa, Aníta og Sara Mjöll 0.
KR: Melissa Leichlitner 26/5 frák/5 stolnir. Kristrún Sigrjónsdóttir 18/4 frák. María Ben Erlingsdóttir 18/3 frák. Guðbjörg Sverrisdóttir 11/8 frák. María Björnsdóttir 4. Þórunn Bjarnadóttir 3. Unnur Lára 3/4 frák. Lacey Simpson 2/7 frák. Ragnheiður, Berglind Karen og Kristín 0.
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín