spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKeflavík aftur upp í þriðja sætið eftir sigur á Grindavík

Keflavík aftur upp í þriðja sætið eftir sigur á Grindavík

Keflavík lagði Grindavík í kvöld í Subway deild karla, 78-70. Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 28 stig á meðan að Grindavík er í 7. sætinu með 22 stig.

Fyrir leik

Fyrri leik liðanna í deildinni í vetur vann Keflavík í HS Orku Höllinni í Grindavík þann 17. desember, 76-90.

Gangur leiks

Það voru heimamenn í Keflavík sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 21-14. Grindavík gerir vel í að missa heimamenn ekki lengra frá sér undir lok fyrri hálfleiksins. Hvorugt liðið þó að skjóta boltanum neitt sérstaklega vel í þessum fyrri hálfleik, en heimamenn 8 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-32.

Stigahæstur í fyrri hálfleiknum fyrir heimamenn var Mustapha Heron með 10 stig á meðan að fyrir Grindavík var Ivan Aurrecoechea kominn með 11 stig.

Líkt og þann fyrri byrja heimamenn í Keflavík betur en Grindavík. Sigla forystu sinni í tveggja stafa tölu, þar sem að gestirnir litu síst líklega út til að gera þetta að jöfnum leik. Staðan fyrir þann fjórða 58-45 fyrir Keflavík. Keflavík nær svo að halda í fenginn hlut þangað til fjórði leikhlutinn er um það bil hálfnaður. Þá ná gestirnir úr Grindavík góðu 7 stiga áhlaupi og er munurinn aðeins 5 stig þegar rétt rúmar 3 mínútur eru eftir af leiknum, 71-66. Undir lokin má svo segja að Keflavík hafi verið nokkuð öruggir, hleyptu Grindavík aldrei meira en tveimur körfum frá sér og sigra að lokum með 8 stigum, 78-70.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík skaut boltanum betur en Grindavík í kvöld, voru með 42% skotnýtingu á móti aðeins 30% nýtingu Grindavíkur.

Atkvæðamestir

Fyrir Keflavík var Mustapha Heron atkvæðamestur með 24 stig, 7 fráköst og Darius Tarvydas bætti við 14 stigum og 8 fráköstum.

Fyrir Grindavík var Kristinn Pálsson atkvæðamestur með 21 stig og 5 fráköst. Honum næstur var EC Matthews með 16 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Lokaumferð Subway deildarinnar fer fram komandi fimmtudag 31. mars. Þar heimsækir Keflavík granna sína í Njarðvík á meðan að Grindavík fær Íslandsmeistara Þórs í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)

Fréttir
- Auglýsing -