Bojan Desnica kom til Íslands fyrir rúmum 11 árum og var ekki lengi að finna sér þjálfarastöðu í körfuboltanum en Bojan er Serbi og þar er körfubolti ekki leikur heldur trúarbrögð. Bojan hefur m.a. komið við hjá Breiðablik og Stjörnunni en fyrsta þjálfarastaða hans hérlendis var hjá KR þar sem hann þjálfar einmitt í dag. Karfan.is ákvað að taka púlsinn á Bojan og ekki að ósekju þar sem þjóðirnar tvær sem eru honum svo hugleiknar, Ísland og Serbía, munu mætast í Evrópukeppninni síðla sumars 2012.
Bojan er frá litlum bæ rétt fyrir utan Belgrad í Serbíu sem heitir Sremska Mitrovica. ,,Undir bænum mínum er einn af gömlu höfuðstöðvum gamla keisaraveldis Rómar,“ sagði Bojan svo það vantar ekki söguna í fæðingarstaðinn. Líkt og svo margir aðrir drengir í Serbíu þá spreytti Bojan sig í körfubolta.
,,Körfubolti var alltaf stærsta íþróttin og er enn stærst í Serbíu en körfubolti var sérlega stór í gömlu Júgóslavíu. Faðir minn lék í efstu deild gömlu Júgóslavíu og lék m.a. með goðsögninni Josip Djerdja frá Zadar í Króatíu en sá bær og svæðið í kring er þekkt fyrir að framleiða góða skotmenn. Í um 10km. fjarlægð er Sibenik og þaðan var Drazen Petrovic en þessir tveir bæir í Króatíu eru svipaðir og Keflavík og Njarðvík,“ sagði Bojan sem sjálfur hætti í körfubolta 19 ára gamall.
Af hverju Ísland?
,,Ég var í körfubolta þangað til ég var 19 ára en þá hætti ég til að fara í lyfjafræði í háskóla í Belgrad. Ég hætti svo í náminu sökum fjárskorts og 22 ára gamall fór ég heim og byrjaði þá að þjálfa hjá klúbbnum í heimabænum mínum. Þar er bara einn klúbbur og þar þjálfaði ég yngri iðkendur félagsins en 25 ára gamall er ég svo fluttur til Ísland,“ sagði Bojan en systir hans hafði komið til landsins á undan honum.
,,Ísland var eini kosturinn í stöðunni eða vera áfram í Serbíu. Systir mín kom hingað árið 1999 þar sem maðurinn hennar var knattspyrnumaður hjá Val. Systir mín var mjög ánægð með veruna sína hér og bauð mér að koma til sín. Hér hóf ég nám í lyfjafræði sem gekk ekki upp því námið var aðeins á íslensku og ég nýkominn til landsins og því var erfitt að setja sig inn í þetta. Á sama tíma var ég að starfa hjá Íslenskri erfðagreiningu og þar í einum kaffitímanum komst ég að því að KR væri að leita að þjálfara, það var í raun móðir Grétars Guðmundssonar sem fæddur er 1985 sem kom mér í þessi sambönd við réttu aðilana og þannig byrjaði ég að þjálfa á Íslandi,“ sagði Bojan sællar minningar.
,,Mitt fyrsta lið á Íslandi voru leikmenn í KR fæddir 1984 og 1983 og þessa leiktíð urðum við bikarmeistarar. Ég tók við nokkrum flokkum til viðbótar hjá KR, þjálfaði einnig kvennaflokka hjá félaginu og m.a. þá félaga Ellert Arnarson og Brynjar Þór Björnsson, það var mjög sterkur hópur. Eftir tvö ár í KR tók ég við meistaraflokki Stjörnunnar og daginn fyrir fyrsta leik fékk ég þær upplýsingar frá KKÍ að Stjarnan væri ekki að standa sig og yrði því ekki með á Íslandsmótinu í 1. deild karla. Þetta bjargaðist þó að lokum því þarna komu inn núverandi formaður, Gunnar Kristinn Sigurðsson og aðrir góðir og gengu í málið. Eftir veruna í Garðabæ fór ég aftur að þjálfa hjá KR og tók m.a. við meistaraflokki kvenna. Þaðan lá leiðin í Kópavog þar sem ég tók við Breiðablik og það er það lið sem leikið hefur hvað besta boltann af þeim liðum sem ég hef þjálfað hérlendis. Við vorum í 2. sæti deildarinnar án erlendra leikmanna og vorum með góða spilara þarna eins og Þorstein, Aðalstein, Sævar, Jónas, Leif og fleiri góða Blika. Í úrslitakeppninni kom ég inn með kana í liðið og hann eyðilagði allt saman og við töpuðum gegn Stjörnunni í úrslitakeppninni,“ sagði Bojan sem í dag þjálfar 9. flokk hjá KR.
,,Þetta er þriðja árið í röð sem ég þjálfa hjá KR og ég fór með þessa 1997 stráka til Serbíu í sumar og kann mjög vel við að vinna með þeim enda er þetta duglegur hópur.“
Að þjálfa á serbneska vísu á Íslandi er ómögulegt!
Bojan er þjálfari sem vill þjálfa metnaðarfull lið, sama hver aldurinn er. ,,Ég er kappsamur að eðlisfari og öll viljum við vinna. Þau lið sem hafa metnað eru mér að skapi, þetta eru lið sem vilja taka framförum og leggja mikið á sig til þess,“ sagði Bojan og telur sig hafa breyst mikið síðan hann kom frá Serbíu til Íslands.
,,Að þjálfa á serbneska vísu á Íslandi er ómögulegt. Hugarfarið og menningin eru öðruvísi og á Íslandi er númer eitt að hafa gaman í körfubolta. Í Serbíu er íþróttin mjög stór atvinnugrein og aginn því töluvert meiri og það munið þið sjá þegar landsliðin okkar mætast síðla sumar 2012. Samkeppnin í Serbíu er gríðarlega mikil hjá körfuboltakrökkum. Það er ekki skylda í Serbíu að láta alla spila, þeir bestu spila bara enda er úrvalið af leikmönnum töluvert meira og alvaran byrjar á fullu í kringum 13-14 ára aldur og þá verða einstaklingarnir að leggja mjög mikla vinnu á sig í afar samkeppnishæfu umhverfi!
Sjálfur hef ég breyst. Þegar ég byrjaði að þjálfa á Íslandi var ég týpískur serbneskur þjálfari en svo rak ég mig á að svoleiðis gæti ég ekki verið hér svo ég varð að finna milliveg og tel mig hafa fundið hann. Ef við tökum níunda flokkinn sem ég þjálfa núna þá eru þar afar agaðir leikmenn og mínu mati er það eitthvað sem íslenskur körfuknattleikur þarf á að halda. Í Serbíu er heragi og menn líta til þjálfarans og umgangast hann eins og hershöfðingja svo helsti munurinn á þessum tveimur löndum er þá aginn og svo líka sjálft eðli leiksins í löndunum.“
Nám og þjálfun
Bojan hefur verið í rúman áratug á Íslandi og hefur orðið var við töluverðar breytingar í boltanum hér heima: ,,Maður sér glöggt hvaða þjálfarar hafa farið að fylgjast með Evrópuboltanum og maður sér það í leikjum þeirra, hvernig þeir spila vörn og sókn. Þá var gaman að sjá áherslurnar hjá Peter Öqvist landsliðsþjálfara, hann vill ekki skora meira en hin liðin, hann vill fá á sig færri stig í vörninni! Á Íslandi er fegurðin við körfubolta enn fólgin í því að skora meira en andstæðingarnir. Stóra spurningin er hvor aðferðin sé betri eða réttari. Fyrir mig sem þjálfara vel ég það að spila betri vörn en hitt liðið og galdurinn er sennilega jafnvægði þarna á milli,“ sagði Bojan sem hefur verið hrifin af komu Helga Jónasar Guðfinnssonar inn í úrvalsdeildina sem þjálfari. ,,Helgi er með skipulagðan leik og svo fannst mér það sem Hrafn var að gera á síðustu leiktíð með KR vera spennandi en liðið er í smá umskiptum núna. Ingi Þór var að gera góða hluti með Snæfell þegar þeir urðu meistarar, þá fannst mér boltinn þeirra mjög góður og skipulagður, mikið um ,,pick and roll,“ svona Evrópubolti. ,,Pick and roll“ körfubolti er mér að skapi.“
Bojan er mikill námsmaður og í dag er hann í mastersnámi í heilsuhagfræði og er að ljúka við BS ritgerð í viðskiptafræði. ,,Þjálfaraferillinn mun því svolítið ráðast af náminu hjá mér en körfubolti og lærdómur eru því á svipuðum stalli hjá mér um þessar mundir,“ sagði Bojan en fátt veitir þjálfaranum frá Serbíu þó meiri ánægju en að fá einbeittan og viljasterkan hóp upp í hendurnar í þjálfuninni. ,,Ég stefni bara að því að þjálfa metnaðarfull lið, eins og strákana í 9. flokki hjá mér í KR. Ég er ánægður með lið sem sýna viðbrögð við sínum leikjum, sérstaklega við tapleikjum, vilji læra af þeim og verða betri.“
Ísland og Evrópukeppnin þar sem við mætum Serbum
Eins og kunnugt er drógust Ísland og Serbía saman í riðil í Evrópukeppninni. Við inntum Bojan eftir því við hverju Ísland mætti búast gegn jafn sterkum mótherjum.
,,Ísland verður ekkert endilega burstað í svona leik, ef íslenska liðið nær góðri byrjun og setur nokkra þrista verður fróðlegt að sjá hvernig fram vindur. Serbar og Svartfellingar munu koma til Íslands eftir fimm tía flug, nýr völlur, nýjar körfur. Boltinn sem Serbar spila er ekki ósvipaður og við sáum Svartfellinga mæta með hingað til lands þegar þeir telfdu fram sínu sterkasta liði sem m.a. innihélt Nikola Pekovic. Serbar munu ráðast í teiginn, Nenad Kristic og Kosta Perovic verðar erfiðir enda sérlega sterkir í ,,transition.“ Í leikstöðum 1, 2 og 3 eru leikmenn í og yfir tveimur metrum, geta skotið og farið inn í teig. Ísland fær því að takast á við nýja hluti gegn Serbum sem munu ráðast á ,,low post.“
Hvernig verður þetta þá t.d. úti í Serbíu?
,,Landsliðið mun leika í litljum bæjum í Serbíu í þessari keppni en liðið hefur ekki leikið utan Belgrad í einhver 15 ár. Fólk á landsbyggðinni mun fjölmenna á leikina með amk. 6000 áhorfendum sem koma til að styðja við hetjurnar sínar. Útileikurinn gegn t.d. Serbíu verður mikil áskorun fyrir íslensku leikmennina enda verður troðið á leikjunum, stuðningsmenn munu hamast verulega í íslensku leikmönnunum en svona umhverfi er eitthvað sem landsliðsmenn Serbíu þekkja vel enda allir atvinnumenn í stórum deildum. Þeir eru eitthvað færri íslensku leikmennirnir sem starfa daglega við svona aðstæður. Það gæti því verið ráð að leika fyrir luktum dyrum og hafa alveg hljóð þegar Serbía kemur til Íslands,“ sagði Bojan gamansamur.
Skylda fyrir Ísland að taka þátt í keppninni
Kostnaðurinn við þátttöku Íslands í Evrópukeppni karla verður töluverður. Bojan segir Ísland nánast skylt til að taka þátt sama hvað kostnaði líður. ,,Þið verðið að hugsa um af hverju þið setjið stöðugt pening í bandaríska leikmenn hér á Íslandi en sendið aldrei klúbba í Evrópukeppnir, eða hafið ekki gert í langan tíma en þið eigið að vilja að mæla ykkur á Evrópukvarðanum og senda landsliðið til keppni sem og bestu klúbbana í Evrópukeppnir félagsliðanna. Í dag er Ísland með nánast fullt landslið af atvinnumönnum og því nánast skylda að senda liðið til keppni. Það verður að gleyma kostnaðinum við þátttökuna enda á hann ekki að þvælast fyrir því af hverju ættu krakkar að æfa körfubolta ef þeir sjá ekki alþjóðlegar hetjur skjóta upp kollinum, stærri, sterkari og betri leikmenn, þá bestu.“
Við sláum botninn í viðtalið við Bojan sem kveðst hafa séð jákvæðar breytingar í körfuboltanum á Íslandi en hann er með hugmynd: ,,Ég vil sjá það byrja með 8. flokki og upp úr að hafa Íslandsmót hjá þeim sem keppa í einni til tveimur deildum í stað fjölliðamóta. Fyrir sum lið gæti komið upp aukinn kostnaður en ef þú vilt bæta körfuboltann þarf að gera jákvæðar breytingar eins og þessar. Þarna munu leikmenn í 8. flokki og upp úr leika í hverri viku í staðinn fyrir að fara á 3-4 fjölliðamót á hverju ári. Þetta setur einnig meiri pressu á þjálfarana að undirbúa sig fyrir leik í hverri viku. Þetta var gert fyrir löngu í Serbíu og virkar afar vel og mikil ánægja þar með þetta fyrirkomulag.“
Bojan sneiddi myndarlega fram hjá jólahátíðinni á Íslandi og í Serbíu. Þegar jólin voru að bresta á hérlendis hélt hann út til Serbíu og svo þegar þau voru að bresta á í hans heimalandi hélt hann aftur til Íslands. ,,Jól í Serbíu eru 7. janúar og þar tíðkast ekki að gefa gjafir, þar snýst málið meira um matinn og samverustundirnar með fjölskyldunni.“
Viðtal/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Mynd/ Jón Björn Ólafsson – Bojan með íslenska fánann íklæddur serbneska landsliðsbolnum sínum. Hann mun ekki láta sig vanta þegar Serbar mæta síðar í sumar á Klakann.