Keppni er hafin á nýjan leik í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta og voru það meistarar Sundsvall sem riðu á vaðið þegar Brynjar Þór Björnsson og félagar í Jamtland mættu í heimsókn. Um stórsigur Drekanna var að ræða í kvöld þar sem Jakob Örn Sigurðarson fagnaði 3. sætinu í kjörinu á íþróttamanni ársins með 19 stigum.
Lokatölur leiksins voru 107-78 Sundsvall í vil. Jakob Örn var stigahæstur með 19 stig og 5 stoðsendingar. Hlynur Bæringsson bætti við 16 stigum, 8 fráköstum og 4 stoðsendingum og þá var Pavel Ermolinski með myndarlega þrennu, 13 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar. Sex leikmenn Sundsvall gerðu 13 stig eða meira í leiknum.
Hjá Jamtland var Evaldas Zabas stigahæstur með 18 stig en Brynjar Þór Björnsson gerði 8 stig í leiknum og gaf 5 stoðsendingar.
Með sigrinum komst Sundsvall í 2. sæti deildarinnar en Jamtland situr í níunda og næstneðsta sætinu.