UMFN og Tindastóll mættust í gærkvöld í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í drengjaflokki í Ljónagryfjunni. Fyrir leik voru bæði lið taplaus í A riðli Íslandsmóts en leikurinn varð í raun aldrei spennandi og heimamenn í Njarðvík höfðu betur 82-64.
Njarðvíkingar voru að spila hörku vörn í fyrri hálfleik og skoruðu töluvert af körfum úr hraðupphlaupum meðan gestirnir skutu mikið fyrir utan. Ingvi Ingvarsson setti fjóra þrista í fyrri hálfleiknum en það dugði skammt enda Njarðvík að fá stig frá mörgum leikmönnum. Þeir Maciej Baginski, Elvar Friðriksson og Oddur Pétursson voru atkvæðamiklir í upphafi og forystan varð snemma 10 stig. Heimamenn hertu vel á vörninni í öðrum leikhluta og leiddu 46-26 í hálfleik.
Í síðari hálfleik náðu þeir svo mest 26 stiga forskoti en Tindastólsmenn gáfust aldrei upp og settu nokkra þrista til að minnka muninn og áttu góðan 11-0 kafla í upphafi fjórða leikhluta og munurinn varð þá minnstur 11 stig en þá tóku Njarðvíkingar við sér aftur og sigldu öruggum sigri í höfn.
Maciej Baginski var stigahæstur UMFN með 23 stig, Elvar Friðriksson gerði 14 stig, Oddur Pétursson 11 og Dagur Sturluson 10. Hjá Stólunum var Ingvi Ingvarsson langatkvæðamestur með 27 stig og Pálmi G Jónsson gerði 15 stig.
Mynd/ Úr safni – Baginski var stigahæstur Njarðvíkinga í gærkvöldi í sigrinum gegn Tindastól.