Það verður að segja að KR hafi sloppið með skrekkinn þegar þeir lögðu baráttuglaða Þórsara í kvöld en gestirnir höfðu tveggja stiga sigur 91:93 í fjörugum leik.
Gestirnir byrjuðu leikinn betur og höfðu náð sjö stiga forskoti þegar fyrsti leikhlutinn var hálfnaður 8:15 en þá fór í hönd góður kafli hjá Þór sem skoraði 12:6 áður en leikhlutinn var allur. KR leiddi af honum með einu stigi 20:21.
KR hafði frumkvæðið framan af öðrum leikhluta og náðu þá mest sjö stiga forskoti en Þórsarar börðust af miklum krafti og komust yfir í fyrsta og eina sinn í leiknum 36:35 þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. KR vann leikhlutann með fimm stigum 23:28 og leiddu í hálfleik með sex stigum 43:49.
Fyrri hálfleikur var skemmtilegur þar sem ekki var að sjá að sextán stig skildu liðin tvö að. Hjá Þór voru þeir August, Baldur Örn, Kolbeinn og Dúi Þór atkvæðamestir en hjá KR voru Isaiah Manderson og Adama Darbo öflugir.
Þórsarar mættu ákveðnir til leiks eftir hlé og héldu áfram að láta vesturbæinga hafa fyrir hlutunum. Gestirnir leiddu þó ávallt en forskot þeirra var þó aðeins eitt stig eftir fjögurra mínútna leik 59:60. En þegar um tvær og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum og munurinn fimm stig 64:69 töpuðu Þórsarar áttum um stund sem varð til þess að KR skoraði 15:4 áður en leikhlutanum lauk. Gestirnir unnu leikhlutann með tíu stigum 25:35 og höfðu því sextán stiga forskot þegar lokaspretturinn hófst.
Voru nú flestir á því að þarna hafi gestirnir farið langt með að klára leikinn, en annað átti eftir að koma í ljós.
Þórsarar mættu gífurlega grimmir inn í lokaleikhlutann og ljóst að menn voru ekki tilbúnir að gesta upp fyrr enn í fulla hnefana. Smátt og smátt tóku leikmenn Þórs að saxa á forskot gestanna og réði þar mestu magnaður varnarleikur. Þórsarar héldu gestunum niðri og stálu hverjum boltanum á fætur öðrum og þegar ein og hálfmínúta lifði leiks var munurinn aðeins fjögur stig 89:93.
Þegar 30 sekúndur voru eftir af leiknum minnkaði Dúi Þór muninn í tvö stig 91:93 og allt að verða vitlaust. En óðagotið á báðum liðum var mikið það sem eftir lifði og hvorugu liðinu tókst að skora og tveggja stiga sigur gestanna staðreynd 91:93
Þórsarar unnu lokakaflann 23:9.
Þórsarar spiluðu einn sinn besta leik í vetur og allir komust vel frá sínu. Framan af leik kom t.a.m. Baldur Örn sterkur inn en hann lenti snemma í villu vandræðum og krækti í sína fimmtu villu um miðjan fjórða leikhluta. En stigahæstur var August með 30 stig Dúi Þór með 16 og Kolbeinn Fannar 15.
Hjá KR var Isaiah Joseph Manderson með 19 stig og 10 fráköst, Adama Kasper Darbo 18 og Brynjar Þór Björnsson með 14.
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh