spot_img
HomeFréttirMyndasafn og grein: Actavísmótið 2012

Myndasafn og grein: Actavísmótið 2012

Hið árlega Actavísmót Körfuknattleiksdeildar Hauka var haldið um helgina í DB Shenkerhöllinni að Ásvöllum!
Mjög góð þátttaka var á mótinu í ár en 93 lið með um 600 strákum og stelpum mættu á mótið í ár ásamt um 1.200 foreldrum og aðstandendum leikmanna. Leikið var á 6 völlum laugardag og sunnudag og voru leikirnir alls 150. Í ár þá tóku lið frá KR, Keflavík, Stjörnunni, Fjölni, Val, Hamri og Breiðablik ásamt gestgjöfunum Haukum þátt í mótinu.
 
Stuðningsmenn liðanna mættu vel til að styðja sín lið en allir leikmenn sem taka þátt í mótinu eru sigurvegarar og fengu verðlaun frá aðalstyrktaraðila mótsins Actavís í mótslok. Að auki fengu allir leikmenn frítt í sund. Hafnarfjarðarbær styrkti mótið nú eins og undanfarin ár en það hefur nú verið haldið nú í 9 ár samfellt og er mótið orðið árlegur viðburður í íþróttabænum Hafnarfirði.
 
Einbeiting og leikgleði skein úr hverju andliti leikmanna á mótinu þar sem allir fara heim sem sigurvegarar með verðlaun og bros á vör eftir skemmtilegt mót! Ánægjulegt var einnig að sjá hversu vel var mætt af foreldrum leikmanna og öðrum aðstandendum þirra til að styðja leikmennina á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
 
Mörg frábær tilþrif sáust á mótinu og er greinilegt að margir þeirra leikmanna sem mættu á mótið eiga framtíðina fyrir sér í körfuknattleiksíþróttinni og verða eflaust síðar landsliðsmenn Íslands í körfu.
 
Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Hauka sá um undirbúning, skipulagningu og framkvæmd mótsins undir styrkri stjórn Brynjars Steingrímssonar mótsstjóra og Gísla Guðlaugssonar formanns barna- og unglingaráðs. Gestir Hauka voru á einu máli um að mótið í ár hafi tekist mjög vel þökk sé um 100 sjálfboðaliðum sem komu úr stjórn og ráðum Körfuknattleiksdeildarinnar ásamt þjálfurnum og leikmönnum í meistara-, unglinga,- stúlkna-, og drengjaflokkum.
 
Fyrir hönd Körfuknattleiksdeildar Hauka vil ég þakka öllum þátttakendum á mótinu sem og þeim fjölda sjálfboðaliða sem unnu að mótinu fyrir skemmtilegt mót með von um að enn fleiri láti sjá sig á Actavísmótinu að ári liðnu.
 
Samúel Guðmundsson
Formaður Körfuknattleiksdeildar Hauka
 
 
   
Fréttir
- Auglýsing -