Tómas Heiðar Tómasson var stigahæstur í liði Newberry skólans þegar liðið tapaði gegn Anderson í bandarísku NCAA II deildinni í gær. Lokatölur voru 98-101 Anderson í vil á heimavelli Newberry þar sem Tómas setti niður 24 stig í leiknum á 25 mínútum.
Tómas var ekki í byrjunarliðinu og kom sterkur af bekknum með 24 stig eins og áður greinir en hann var einnig með 2 stoðsendingar og 1 frákast í leiknum. Ægir Þór Steinarsson lét einnig að sér kveða en hann lék í 26 mínútur í leiknum, skoraði 8 stig, gaf 7 stoðsendingar, tók 5 fráköst og stal 1 bolta. Það kom í hlut Ægis að taka síðasta skot leiksins til að jafna og knýja fram framlengingu en skotið rataði ekki rétta leið og Anderson skólinn fagnaði því góðum útisigri.
Newberry hefur nú leikið fimm leiki í SAC riðlinum, unnið tvo en tapað þremur. Næsti leikur liðsins í SAC riðlinum er á heimavelli gegn Carson-Newman skólanum þann 14. janúar næstkomandi.