Grindavík tók á móti Njarðvík í gærkvöldi í bikarkeppni 9. flokks karla. Leikurinn fór fram í Röstinni í Grindavík þar sem gulir höfðu 58-49 sigur á Njarðvíkingum en Grindavík lokaði leiknum af miklum krafti.
Leikurinn var nokkuð jafn þó Njarðvíkingar hefðu byrjað með látum, 2-10. Grindvíkingar voru fljótir að ranka við sér og leiddu með fjögurra stiga mun í hálfleik.
Ragnar Friðriksson var drjúgur í liði Njarðvíkinga og grænir náðu að minnka muninn niður í þrjú stig fyrir síðasta leikhluta. Á lokasprettinum stungu Grindvíkingar þó af og kláruðu leikinn 58-49 og eru því komnir áfram í bikarkeppninni.
Hilmir Kristinsson var stigahæstur í liði Grindavíkur en hjá Njarðvíkingum var Kristinn Pálsson atkvæðamestur.