spot_img
HomeFréttirHáspenna í Keflavík

Háspenna í Keflavík

 Það voru skoruð 11 stig á síðustu rúmum 20 sekúndum leiks Keflavíkur og Grindavíkur í kvöld þar sem að Grindvíkingar fóru með nauma sigur af hólmi 85:86.  Grindvíkingar höfðu í raun heppnina með sér að þessu sinni og ekki laust við að þetta skuli teljast til stuldar þessi sigur þeirra.
 Leikurinn var hnífjafn eftir fyrsta fjórðung en þá höfðu bæði lið sett niður 25 stig á haus og allt stefndi í hörku leik.  Fyrir leik bjuggust líkast til margir við því að toppliðið myndi valta yfir vængbrotna Keflvíkinga sem fyrr í vikunni misstu sinn mesta stigaskorarar til Spánar. En það voru þeir sem tóku góðu rispu undir stjórn Magnúsar Þórs Gunnarssonar og náðu upp 16 stiga forskoti.  En þá var eins og nálardofi virtist vera í öllum leikmönnum Keflavíkur því það var komið að Grindvíkingum og hægt og bítandi náðu þeir sé tilbaka inn í leikinn þegar þeir skoruðu 21 stig án þess að Keflvíkingar næðu að svara fyrir sig.  Já Adam var ekki lengi í paradís og Grindvíkingar heldu til leikhlés með þriggjastiga forskot. 
 
Leikurinn hélt áfram og í seinni hálfleik var það einfaldlega stál í stál.  Jafn og harður leikur þar sem að leikmenn troðfylltu kvörtunarboxið hjá dómurum leiksins og uppskáru í kjölfarið tæknivillur.  Í fjórða fjórðung voru Grindvíkingar eiginlega skrefinu á undan en náðu aldrei að hrista Keflvíkinga almennilega af sér.  En það sem skipti máli voru lokasekúndurnar og voru þær æsispennandi.  Þegar um 40 sekúndur eru eftir af leiknum setur Charlie Parker niður tvö víti og kemur heimamönnum í tveggja stiga forskot.  J´Nathan Bullcok fór hinsvegar fyrir sínum mönnum hinumegin á vellinum og setur niður tvö stig og fær villu að auki.  Setur niður vítið og Grindvíkingar komnir með 1 stigs forystu.  En og aftur var það Charlie Parker hinumegin á vellinum sem "drævar" að körfunni og er brotið á honum um leið og hann setur niður 2 stig.  Vítið ofaní og aftur eru það Keflvíkingar sem eru komnir með 2ja stiga forskot og aðeins 15 sekúndur eftir af leiknum. Grindvíkingar halda í sókn og Björn Steinar Brynjólfsson var svo að lokum hetja þeirra sem setti niður þrist úr horninu og Grindvíkingar búnir að endurheimta forystuna 85:86.  Sigurður Ingimundarson tekur leikhlé og fer yfir leikkerfi sem átti að rúlla í síðustu sókninni.  Boltinn kemur inná Charlie Parker sem fór uppá sínar eigin spítur í þokkalegt skot en það geigaði og Grindavík sigrar leikinn.  Augljóslega ekki eitthvað sem að Sigurður Ingimundarson lagði upp því hann var allt annað en sáttur þegar hann skundaði til búningsherbergja eftir leik.  
 
 Góðar fréttir úr þessu fyrir Keflvíkinga voru kannski þær að Valur Orri Valsson sem tók við af kelfinu frá Steven Gerrard stóð sig mjög vel.  Hann skoraði 16 stig og sendi 6 stoðsendingar.  En ef tekið er mið að stigaskorinu er óhætt að segja að Keflvíkinga vantar einn leikmann til viðbótar í sitt lið með framlag til að eiga möguleika í þann stóra.  Tækifæri fyrir ungamenn vissulega og nú er að sjá hver tekur þessari áskorun. 
 
Grindvíkingar hafa vissulega átt betri leik og þá sérstaklega varnarlega.  Þeir voru að vissuleiti værukærir og kannski spilaði þar inní að Keflvíkingar misstu máttarstólpa úr sínu liði á meðan Grindvíkingar bólstruðu sitt lið.  Verðugt verkefni fyrir Helga Jónas þjálfara þeirra að vinna í. 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -