spot_img
HomeFréttirSvavar: Viljum láta taka okkur alvarlega

Svavar: Viljum láta taka okkur alvarlega

Svavar Atli Birgisson gerði 13 stig fyrir Tindastól í kvöld í mögnuðum sigri Skagfirðinga gegn Stjörnunni í Ásgarði kvöld. Framlengja varð leikinn þar sem Stólarnir reyndust sterkari á lokasprettinum. Karfan.is náði í skottið á Svavari sem var hinn kátasti í liðsrútunni á heimleið.
,,Þetta er allt fyrir áhorfendur gert,“ svaraði Svavar þegar Karfan.is spurði hann að því hvort Tindastóll hreinlega gæti ekki spilað neitt annað en spennuleik.
 
,,Þetta var stór sigur í kvöld og við misstum sem betur fer aldrei trúnna á þessu en við vorum að elta þá framan af leik. Það hefur verið mikil seigla í hópnum hjá okkur að undanförnu og það er ég afar sáttur við. Nú erum við með hörkulið að rúlla á mörgum mönnum svo þetta dreifist mikið hjá okkur og er mikill styrkur,“ sagði Svavar sem á sunnudag tekur á móti Njarðvíkingum í Síkingu þegar liðin mætast í 8-liða úrslitum bikarsins.
 
,,Það þarf ekkert að segja Njarðvíkingum að mæta klárir í þennan leik,“ sagði Svavar en Tindastóll lagði Njarðvíkinga í miklum slag í elleftu umferð deildarinnar. Grænir fá nú tækifæri til að kvitta fyrir það tap á sunnudag.
 
,,Ég neita því ekki að við ætlum okkur í undanúrslit í bikarnum og vonandi verður fjölmennt hjá okkur á sunnudag.“
 
Tindastóll TV hefur sýnt síðustu tvo útileiki í beinni á netinu og í kvöld var fjöldi manns saman kominn á Kaffi Krók og víðar til að fylgjast með leiknum gegn Stjörnunni. ,,Það verða allir í Síkinu á sunnudag eða fyrir framan tölvuna enda var pakkað skilst mér á Kaffi Krók og víðar í kvöld yfir Stjörnuleiknum. Við finnum auðvitað fyrir þessum góða stuðningi og áttum t.d. helling af fólki í Garðabænum í kvöld og það var glæsilegt.“
 
Eru menn stórhuga um þessar mundir?
,,Já já en við höldum okkur á jörðinni, það er enginn að byggja skýjaborgir en við höfum mannskap í að gera eitthvað meira en undanfarin ár og viljum láta taka okkur alvarlega.“
 
Mynd/ Jóhann Sigmarsson Svavar til varnar í kvöld gegn Renato Lindmets.
 
Fréttir
- Auglýsing -