Leikurinn í gærkvöld var uppgjör fyrstudeildar liðanna í Poweradebikarkeppninni. Skammt er síðan Hamar færði KFÍ fyrsta ósigurinn í fyrstu deildinni og því áttu heimamenn harma að hefna. Það var ljóst strax á upphafsmínútunum að leikmenn KFÍ voru tilbúnir í átökin og gestirnir sömuleiðis.
Eins og við var að búast var mikil barátta í upphafi leiks og liðin sóttu ákaft, en varnarleikurinn var brokkgengari hjá báðum liðum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 24:19 fyrir KFÍ. Annar leikhluti fór svo af stað með miklum látum og þá keyrði KFÍ mjög stíft á gestina með hröðum leik og ákafa í vörn. Þar náði KFÍ undirtökunum og litu ekki um öxl það sem eftir lifði leiks. Staðan í hálfleik var 52:35 og fóru heimamenn því í leikhlé með 17 stiga þægilega forystu.
Nægur tími eftir í leiknum og Hamarsmenn ætluðu sér örugglega að snúa við þessari þróun í seinni hálfleik. Það gekk þó ekki eftir og hálfleiksræður þjálfaranna breyttu ekki gangi leiksins, því þriðji leikhluti var enn og aftur algjör einstefna þar sem KFÍ réði lögum og lofum á vellinum. KFÍ gaf ekkert eftir og bætti reyndar heldur í leik sinn og breyttu stöðunni í 89:53. Í þessum leikhluta rigndi niður þristum á Hamarsliðið þar sem þeir Kristján Pétur og Ari G. voru sjóðheitir utan af velli. Úrslit leiks voru ráðinn eftir þetta og fjórði leikhluti var í raun formsatriði þar sem KFÍ landaði sætum sigri. Síðustu mínúturnar léku yngri leikmenn KFÍ undir öruggri stjórn Craigs Schoen fyrirliða.
Sigurinn var reistur á góðri vörn, liðsheild og ótrúlegri hittni utan af velli. Ekki hægt annað en að nefna skytturnar þrjár sameiginlega sem menn kvöldsins, en það eru þeir Kristján Pétur, Ari og Craig. Fjölmargir áhorfendur í kvöld voru ekki sviknir af tilþrifum KFÍ sem lék af miklum krafti frá upphafi til loka leiks. Það er erfitt að dæma lið Hamars út frá þessum eina leik, en það er óhætt að segja að þeir hafi fengið nokkuð erfitt verkefni að þessu sinni. Hjá Hamri var Louie Kirkman beittastur og er þar skemmtilegur leikmaður á ferð. Dómarar kvöldsins voru þrír og höfðu þeir örugg tök á leiknum.
KFÍ: Kristján Andrésson 27, Ari Gylfason 26, Craig Schoen 18/11 fráköst/6 stoðsendingar, Christopher Miller-Williams 13/14 fráköst, Edin Suljic 10/5 fráköst, Hlynur Hreinsson 7, Leó Sigurðsson 3, Hermann Óskar Hermannsson 0, Jón H. Baldvinsson 0, Jón Kristinn Sævarsson 0, Sævar Vignisson 0, Sigmundur Helgason 0.
Hamar: Louie Arron Kirkman 21/14 fráköst, Halldór Gunnar Jónsson 14, Bjarni Rúnar Lárusson 8/7 fráköst, Kristinn Hólm Runólfsson 7, Ragnar Á. Nathanaelsson 4/6 fráköst, Bjartmar Halldórsson 4, Mikael Rúnar Kristjánsson 4, Lárus Jónsson 4/5 stoðsendingar, Svavar Páll Pálsson 3/10 fráköst, Emil F. Þorvaldsson 0.
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Georg Andersen og Steinar Orri Sigurðsson.
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson/ Ari Gylfason sækir að körfu Hamars í gærkvöldi.