,,Við vorum ekki að rúlla nægilega mikið inn að körfunni en vorum samt að klára fullt af flottum færum og fullt af jákvæðum hlutum í þessum leik. Ég var t.d. mjög ánægður með Marquis í þessum leik og Hafþór var frábær í fyrri hálfleik en okkur vantaði herslumuninn í kvöld. Í raun áttum við að vinna þennan leik í venjulegum leiktíma en það vantaði trú á það,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells í samtali við Karfan.is eftir háspennuleik í DHL-Höllinni í kvöld þar sem Snæfell féll úr leik í Poweradebikarnum.
,,Svo var skotið hjá Brown fáránlegt sem jafnaði leikinn í 91-91 í fyrstu framlengingunni. Hann getur tekið tíu svona skot og ekki sett niður eitt af þeim en þetta datt hjá honum í kvöld, alveg fáránlegt skot. Maður getur verið vitur eftirá og sagt að við hefðum átt að brjóta á KR til að setja þá á línuna en það er líka ,,risky“ og svo kemur þetta skot sem jafnar leikinn. Gæjinn var bara í ,,zone“ í kvöld og ég bara skil ekkert hvað hann er að gera hérna en hann er pikkaður einhversstaðar upp þar sem hann fær ekki borgað í betri deildum en þetta er alveg frábær leikmaður,“ sagði Ingi en Snæfell fær tækifæri til að kvitta fyrir þennan leik næsta fimmtudag þegar liðið mætir aftur í DHL-Höllina í Iceland Express deildinni.
,,Já bókaðu það, við ætlum að kvitta fyrir þetta,“ sagði Ingi í vígaham en fyrir leikinn í kvöld var orðrómur á kreiki um að Snæfell væri að bæta við sig þriðja erlenda leikmanninum. Við inntum Inga eftir því hvort eitthvað væri til í þeim efnum.
,,Orðrómurinn sem var fyrir þennan leik var gripinn úr lausu lofti en við ætlum bara að keyra á þessum mannskap sem við erum með enda mjög sáttir við að vera með tvo kana enda ætti 3 2 reglan að vera í gangi hérna. Ég skil ekki liðin hér á suðvesturhorninu með þetta aðgengi að íslenskum leikmönnum að þurfa að hrúga endalaust á sig erlendum leikmönnum. Mér finnst það vanvirðing við þá íslensku leikmenn sem eru fyrir hérna á svæðinu. Sérstaklega lið eins og KR sem er með frábæra einstaklinga í liðinu og félagið sendir þessum mönnum bara tóninn um að það treysti þeim ekki.“