Ljónin rifu í sig bikarmeistarana - Karfan
spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaLjónin rifu í sig bikarmeistarana

Ljónin rifu í sig bikarmeistarana

Njarðvík vann stóran og öruggan sigur á Stjörnunn í Subwaydeild karla í kvöld. Snemma gerðu heimamenn út um leikinn en Garðbæingar klórðuðu í bakkann í lokin. Lokatölur 91-83 þar sem Mario Matasovic gerði 25 stig og tók 10 fráköst í liði heimamanna en en Turner var með 27 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar í liði gestanna.

Nýkrýndir bikarmeistarar Stjörnunnar lentu á hælunum gegn Njarðvík í fyrsta leikhluta. Maciej Baginski var að finna sig vel með 9 stig fyrir heimamenn á fyrstu 10 mínútum leiksins. Njarðvík komst í 10-2 en Garðbæingar minnkuðu í 16-13 en Njarðvík lokaði fyrsta með 12-0 dembu og staðan því 28-15 eftir fyrstu tíu mínútur leiksins. Einhverjir ræddu um bikarþynnku í Garðbæingum og skyldi engan undra.

Allt annað var að sjá til Stjörnumanna í öðrum leikhluta og var hann mun jafnari en sá fyrsti. Garðbæingar náðu þó lítið að klóra sig nærri þar sem leikhlutinn fór 23-21 fyrir Njarðvík og staðan 51-36 í hálfleik. Mario Matasovic var í gírnum í fyrri með 16 stig og 7 fráköst og þar næstur var Maciej hjá Njarðvík með 11 stig. Hjá Stjörnunni var Turner með 11 stig og 4 stoðsendingar. Eftir misgóðar ákvarðanir gestanna í fyrsta leikhluta með sex tapaða bolta þá fóru gestirnir betur með hann í öðrum leikhluta og töpuðu aðeins tveimur en þeirra beið ærið verkefni í síðari hálfleik gegn vel stemmdum Njarðvíkingum.

Hvað svo sem Garðbæingar ætluðu sér í þriðja leikhluta þá var það örugglega allt annað en að fá sig 30 stig. Leikhlutinn var jafn en Njarðvíkingar gerðu vel að halda gestunum fjarri. Í hálfleik var munurinn 15 stig en Njarðvík jók muninn í 18 stig 81-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Í leikhlutanum fékk Fotis högg á augað sem var allt annað en viljaverk en slæmt var það og hann lék ekki meira með í kvöld og við bíðum frekari fregna af stöðunni á honum. Samkvæmt síðustu tíðindum fór hann með sjúkrabíl til Reykjavíkur til aðhlynningar.

Í fjórða kom loks leikhlutinn sem Stjörnuna vantaði, þeir fóru að naga og berjast og það gaf góða raun. Stjarnan minnkaði muninn í 89-83 en þá voru bara tæpar 40 sekúndur til leiksloka. Fínasti fjórði leikhluti hjá gestunum en Njarðvík hafði í raun gert út um leikinn miklu fyrr. Lokatölur 91-83 fyrir Njarðvík og þrátt fyrir sigurinn í kvöld hefur Stjarnan betur innbyrðis en sökum þeirra stiga sem eftir eru í pottinum mun ekki koma til þeirrar stærðfræðiformúlu.

Að lokum
Stjarnan gerði vel að berja sér leið aftur inn í ljósið í kvöld. Frammistaða bikarmeistaranna framan af var bara slök og Njarðvíkingar að sama skapi vel gíraðir. Þessi tvö lið hafa nú skipst á að pakka sínum heimaleikjum gegn hvort öðru, það gæti orðið partý ef þau mætast í úrslitakeppninni. Njarðvík á eftir ÍR úti og Keflavík heima, Stjarnan á eftir Vestra heima og Breiðablik úti. Næstu dagar verða ansi athyglisverðir því það geta enn orðið nokkrar róteringar á skipan í úrslitakeppninni þó ljóst sé að Þór Akureyri og Vestri séu fallin.

Myndasafn
lfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -