spot_img
HomeFréttirSkallagrímur, Keflavík og Njarðvík komin áfram í bikarkeppni drengjaflokks

Skallagrímur, Keflavík og Njarðvík komin áfram í bikarkeppni drengjaflokks

Í gærkvöldi fóru fram þrír leikir í bikarkeppni drengjaflokks þar sem Skallagrímur, Keflavík og Njarðvík komust áfram í keppninni. Einn leikur er eftir í 8-liða úrslitum en það er viðureign KR og Fjölnis sem fram fer á laugardag.
Skallagrímur 90-85 Stjarnan
(umsögn af vef Skallagríms)
 
Leikurinn var æsi spennandi og í síðari hálfleik var mikið jafnræði með liðunum. Þegar um 20 sekúndur voru eftir leiddu Skallagrímsmenn  88-85 og Stjörnumenn með boltann, þriggjastigaskot þeirra misheppnaðist og Skallagrímsmenn tóku frákastið. Það var svo Hjalti Þorleifsson sem innsiglaði sigurinn með tveim vítaskotum, lokatölur 90-85.
 
Hjá Skallagrímsdrengjum er óhætt að segja að allt liðið hafi spilað feyki vel. Davíð Guðmundsson er iðinn við kolann og skoraði 27 stig þar af 7 þriggjastigakörfur, þvílík skytta. Birgir Sverrisson skoraði 22 stig og stjórnaði sókanrleik Skallagrímsmanna eins og hershöfðingi. Baráttuhundarnir og föðurnafnarnir Snorri Þórarins og Þorsteinn Þórarins létu vel finna fyrir sér undir körfunni og rifu niður fráköst í sókn og vörn. Snorri með 18 stig og Þorsteinn 10, aðrir skoruðu minna.
 
Þess má geta að með drengjaflokki spila tveir strákar upp fyrir sig, þeir Kári Jón og Áki Freyr sem eru fæddir 1996 og eru því í 10 bekk. Þeir stóðu sig frábærlega sem og allt liðið sem á hrós skilið fyrir frábæran leik og frábæra skemmtun.
 
Keflavík 122-44 Haukar
 
Hafnfirðingar fengu skell í Toyota-höllinni í gærkvöldi. Keflvíkingar eru því komnir áfram í bikarkeppninni eftir stóran og öruggan sigur. Þetta var einstefna frá upphafi til enda þar sem Andri Daníelsson var atkvæðamestur í liði Keflavíkur með 20 stig ásamt Sævari Frey Eyjólfssyni. Hafiliði Már Brynjarsson bætti svo við 15 stigum og Andri Þór Skúlason gerði 13. Hjá Haukum var Guðmundur Darri með 18 stig.
 
Njarðvík 85-74 Breiðablik
 
Njarðvíkingar unnu karakterssigur gegn Blikum í bikarkeppni drengjaflokks í gærkvöld í Ljónagryfjunni en þar voru lokatölur 85-74. Það voru aftur á móti gestirnir úr Kópavogi sem mættu grimmari til leiks og þeir leiddu 6-15 eftir fyrsta leikhluta og Njarðvíkingar voru akkúrat ekkert að hitta úr skotunum sínum.  Til að auka á áhyggjur þeirra þá fékk Maciej Baginski sína 3ju villu í lok fyrsta leikhluta en þar fyrir utan var Jens Óskarsson ekki með Njarðvíkingum vegna veikinda og hæðin var því ekki mikil á liðinu.
 
Blikarnir bættu í og komust í 6-21 og 9-25 og fátt í spilunum hjá heimamönnum á meðan Snorri Hrafnkelsson var mjög atkvæðamikill hjá Blikum.  Maciej kom aftur inn hjá Njarðvíkingum um miðbik annars leikhluta og þeir breyttu um varnarleik og þá fóru hlutirnir að rúlla betur.  Elvar Már Friðriksson fór fremstur hjá heimamönnum á góðum kafla í lok fyrri hálfleiks og var bæði duglegur í stigaskori og í að finna samherja sína og á skömmum tíma var þetta aftur orðinn leikur og það var Jón Böðvarsson sem að átti lokaorð fyrri hálfleiks með stórum þrist um það leyti sem glumdi í bjöllunni.  Staðan orðin 35-36 og stemmingin að snúast með heimamönnum.
 
Blikar komust í 40-42 snemma í þriðja leikhluta en þá kom kafli hjá Njarðvíkingum þar sem þeir gera 15 stig gegn 2 og staðan orðin 55-44.  Oddur Birnir Pétursson fór mikinn á þessum kafla með 11 stiga Njarðvíkinga og var þar að auki að rífa niður fráköst og verja skot.  Heimamenn fóru svo með 10 stiga forystu, 64-54 inn í fjórða leikhlutann.
 
Blikar skoruðu fyrstu 5 stig fjórða leikhluta og náðu svo að minnka muninn í 4 stig þegar sex mínútur voru eftir.  Maciej Baginski tók þá sinn sprett og gerði 9 stig á stuttum tíma og réðu Blikar illa við hann og þeir Oddur og Elvar héldu einnig áfram að vera gestunum erfiðir.  Vörn Njarðvíkinga efldist enn frekar og Blikar komust ekki nær og skynsamir Njarðvíkingar sigldu 11 stiga sigri í hús og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitum bikarkeppni drengjaflokks.
 
Þríeykið Elvar, Oddur og Maciej áttu allir stórgóðan leik hjá Njarðvíkingum þó þeir tveir síðastnefndu væru lengi í gang.  Maciej gerði 24 stig og þeir Elvar og Oddur gerðu 21 stig hvor.  Tómas Orri Grétarsson gerði 5 stig, Dagur Sturluson 5 stig, Jón Böðvarsson 5 stig, Birgir Snorri Snorrason 3 stig og Brynjar Þór Guðnason 1 stig.
 
Hjá Blikum var Snorri Hrafnkelsson með 27 stig, Ágúst Orrason 18 stig, Ægir Hreinn Bjarnason 10, Sigtryggur Arnar Björnsson 9, Þórir Sigvaldason 6 og Ragnar Óskarsson 4. 
 
Myndir/ Eyþór Sæmundsson – www.vf.is
 
  
Fréttir
- Auglýsing -