spot_img
HomeFréttirBikarspá: Rannveig Kristín

Bikarspá: Rannveig Kristín

Rannveig Kristín Randversdóttir setti skóna á hilluna frægu en sagði þar með ekki endanlega skilið við körfuboltann því hún hefur gerst lykilleikmaður í byrjunarliði Karfan.is og því tilvalið að kreista bikarspá úr þessum nýjasta liðsmanni okkar.
Kvennaleikurinn
Njarðvík-Snæfell
 
-Hvernig spilast þessi?
Ég tel að útlendingar beggja liða eigi eftir að vera í aðalhlutverkum í leiknum. En þetta á eftir að vera góður leikur þar sem Snæfell er komið á góða siglingu eftir að þær fengu nýja liðsmanninn og eru líklegar til alls þó svo að þær hafi tapað öllum leikjum sínum á móti Njarðvík í deildinni í vetur. Þegar komið er í bikarleikinn, þá skipta þeir leikir engu. Auk útlendinganna sinna tveggja þá er Snæfell einnig með Hildi Sigurðardóttur, einn besta leikstjórnanda deildarinnar, og Öldu Leif Jónsdóttur, einn leikreyndasta leikmann deildarinnar. Ef þær eiga góðan dag þá getur allt gerst. Njarðvík hins vegar er með tvo bestu útlendinga í deildinni í ár og þær hafa sýnt að þær geta unnið leiki upp á sínar eigin spýtur. En í svona leik þá þurfa fleiri að stíga upp og þá mun það detta á Petrúnellu Skúladóttur, hún þarf að eiga ,,solid" leik til að taka pressuna af útlendingunum í liðinu. Þá verður Ólöf Helga Pálsdóttir að halda baráttunni uppi í liðinu eins og hún hefur oft gert áður. Ég held að þessi leikur eigi eftir að vera í járnum allan tímann þar sem barátta liðanna verður í fyrirrúmi.
 
-Hver mun stíga upp og baka sér myndarlega bikarminningu?
Fyrir utan útlendinganna í liðinu þá tel ég að í Njarðvík verður það Petrúnella, en einnig mun einhver af þessum yngri stelpum eiga góðar minningar sem mun gera þeim gott hvað framtíðina varðar. Hjá Snæfell verður það Alda Leif, ef hún dettur í gírinn þá verður það svakalegt. En Hildur Sig mun vera þarna með henni. Einnig held ég að Hildur Björg Kjartansdóttir eigi eftir að stíga upp í leiknum en hún er búin að vera að spila mjög vel í vetur þrátt fyrir ungan aldur.
 
-Hver verður bikarmeistari?
Mér finnst ómögulegt að spá fyrir um það því að ég held að þetta geti dottið báðum megin. En ef ég þarf að velja lið þá ætla ég að giska á að Njarðvík muni taka sinn fyrsta bikartitil á laugardaginn.
 
Karlaleikurinn
Tindastóll-Keflavík
 
-Hvernig spilast þessi?
Ég tel að Keflavík muni vera í bílstjórasætinu í dag en Tindastóll mun ekki hleypa þeim of langt frá sér. Held að reynsla Keflavíkur í svona leikjum muni skila sínu þegar komið er í höllina. Það er búið að vera mikið talað um Tindastól og þeirra leið í bikarinn svo að það er kominn svaka spenningur í liðið sem gæti steypt þeim af kolli ef spennan er orðin mjög mikil. En Tindastóll er þekkt fyrir að berjast fyrir sínu og það er nákvæmlega sem ég held að þeir muni gera á laugardaginn. En eins og áður segir þá held ég að Keflavík muni vera í bílstjórasætinu þar sem Valur Orri Valsson muni stýra liðinu með sóma og Maggi Gunn skjóta allt í kaf. Þar að auki munu bæði liðin reiða sig mikið á útlendingana sína og þá er bara spurningin hvaða reynslu þeir hafa á svona leikjum og hvernig taugar þeir hafa.
 
-Hver mun stíga upp og baka sér myndarlega bikarminningu?
Hjá Tindastól mun ég setja peninginn á Keflvíkinginn Þröst Leó Jóhannsson þar sem hann hefur reynsluna af svona leikjum og veit um hvað þeir snúast. Hjá Keflavík mun Valur Orri búa sér til góða minningu af því sem ég held að sé hans fyrsti bikarleikur. Einnig mun Maggi Gunn alltaf standa fyrir sínu.
 
-Hver verður bikarmeistari?
Mitt lið Keflavík mun fara með bikarinn heim.
Fréttir
- Auglýsing -