Íslandsmeistarar Þórs lögðu KR í kvöld á Meistaravöllum í Subway deild karla, 86-100. Eftir leikinn er Þór í efsta sæti deildarinnar með 32 stig á meðan að KR er í 8. sætinu með 18 stig.
Fyrir leik
Liðin höfðu fyrir leik kvöldsins mæst í eitt skipti áður á tímabilinu. Þann 9. desember unnu Íslandsmeistarar Þórs nokkuð öruggan sigur á KR í Þorlákshöfn, 101-85.
Gangur leiks
Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað. Heimamenn í KR ná að vera skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum. Gestirnir ná þó að loka gatinu fyrir enda fjórðungsins, 19-18. Undir lok fyrri hálfleiksins ná Íslandsmeistararnir svo að snúa taflinu sér í vil og eru 7 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 36-43.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Carl Lindbom með 10 stig á meðan að fyrir Þór voru bæði Glynn Watson og Ronaldas Rutkauskas komnir með 10 stig.
Í upphafi seinni hálfleiksins ná Íslandsmeistararnir svo almennilega að slíta sig frá heimamönnum. Koma forystu sinni í 16 stig á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhlutans, 46-62. KR-ingar ná þá að bíta í skjaldarrendurnar og klára fjórðunginn 16-4. Munurinn því aðeins 4 stig fyrir lokaleikhlutann, 62-66. Gestirnir ná svo aftur að sigla framúr í byrjun fjórða leikhlutans, eru 12 stigum yfir þegar fimm mínútur eru eftir, 69-81. Heimamenn í KR ná í raun og veru ekki öðru áhlaupi og Þór siglir að lokum mjög svo öruggum 16 stiga sigur í höfn, 86-100.
Tölfræðin lýgur ekki
Þórsarar unnu frákastabaráttu leiksins nokkuð örugglega með 49 á móti aðeins 32 fráköstum KR í leiknum.
Atkvæðamestir
Adama Darboe var atkvæðamestur heimamanna í leiknum með 18 stig, 10 stoðsendingar og Dani Koljanin honum næstur með 13 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.
Fyrir Þór voru Glynn Watson og Ronaldas Rutkauskas atkvæðamestir. Glynn með 21 stig, 7 stoðsendingar og Ronaldas með 21 stig og 17 fráköst.
Hvað svo?
Næsti leikur KR er þann 27. mars gegn Þór á Akureyri. Íslandsmeistarar Þórs eiga leik næst degi seinna þann 28. mars gegn Tindastól í Þorlákshöfn.