spot_img
HomeFréttirKR á beinu brautina með sigri gegn Val - Draumur um úrslitakeppni...

KR á beinu brautina með sigri gegn Val – Draumur um úrslitakeppni úti hjá Val

KR plantaði sér í fjórða sæti Iceland Express deildar kvenna í kvöld með mögnuðum sigri á Val í baráttu liðanna um borgina en það var mikið í húfi að þessu sinni. Valur að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni sem og KR sem fyrir viðureignina hafði tapað síðustu fimm deildarleikjum. Liðin buðu upp á flottan spennuslag þar sem KR reyndist sterkara liðið í framlengingunni og vann hana 13-6. Lokatölur 78-71 í DHL-Höllinni í kvöld og KR í 4. sæti með 26 stig en Valur í 6. sæti með 22 stig, umferðinni lýkur svo annað kvöld með þremur leikjum. Þessi úrslit þýða að Valur kemst ekki í úrslitakeppnina þetta árið, sama hver úrslitin verða í næstu leikjum.
Fyrri hálfleikur var hnífjafn og spennandi þar sem röndóttum heimakonum leið umtalsvert betur fyrir utan þriggja stiga línuna en inni í teig. Valskonur leiddu 35-36 í hálfleik þar sem Unnur Lára Ásgeirsdóttir átti síðasta orðið fyrir gestina af vítalínunni. Melissa Lechlitner var ekki með Valskonum í kvöld sökum meiðsla sem hún hlaut í síðustu umferð gegn Haukum.
 
Hafrún Hálfdánardóttir var með 13 stig hjá KR í hálfleik og fann sig vel í teignum og María Ben Erlingsdóttir var með 8 stig í liði Vals. KR-ingar voru með 21% nýtingu í teignum en 66,6% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Valskonur að sama skapi voru með 46,6% nýtingu í teignum en aðeins 16,6% þriggja stiga nýtingu.
 
Bæði lið komu nokkuð klaufaleg inn í síðari hálfleikinn, fóru óvarlega með boltann og lítið skorað framan af en svo komust flestir í gang eftir leikhléið og áfram var hnífjafnt. KR tók rispu og sleit sig frá 43-38 eftir þrist frá Ericu Prosser. Valur svarði með 6-0 áhlaupi og staðan 43-44.
 
Lacey Simpson lét ágætlega að sér kveða fyrir Val í þriðja leikhluta og munaði um minna eftir hljóðlátan annan leikhluta hjá henni. Valskonur voru ívið sterkari í teignum í þriðja leikhluta og Signý Hermannsdóttir gerði lokastig leikhlutans þegar 34 sekúndur voru eftir og gestirnir leiddu 49-50 fyrir lokasprettinn.
 
Spennan hélt áfram í fjórða leikhluta, Valur kom með 4-0 dembu og KR svaraði í sömu mynt. Valskonur slitu sig þó sjö stigum frá, 56-63, en KR jafnaði á nýjan leik í 63-63 þegar 2.15mín voru til leiksloka en þar var Erica Prosser á ferðinni eftir stolinn bolta.
 
Prosser kom KR í 64-63 með vítaskoti þegar ein og hálf mínúta var eftir en Kristrún Sigurjónsdóttir kom Val í 64-65 með góðu stökkskoti í KR teignum þegar 24 sekúndur voru til leiksloka. Anna María Ævarsdóttir náði svo mikilvægu sóknarfrákasti í næstu KR sókn eftir þriggja stiga skot hjá röndóttum og brotið var á Margréti Köru en KR var ekki komið með skotrétt. KR tók innkast og Prosser sótti að körfunni en Lacey Simpson kom þá aðvífandi og varði skot Prosser þegar 0,65 sekúndur voru til leiksloka.
 
KR tók innkastið og boltinn barst til Hafrúnar þar sem Kristrún Sigurjónsdóttir braut á henni í skoti um leið go leiktíminn rann út. Hafrún setti niður fyrra vítið, boltinn skoppaði ofan í en í síðara skotinu dansaði boltinn af hringnum og því varð að framlengja í stöðunni 65-65.
 
Rétt eins og allan leikinn var jafnt á með liðunum í framlengingunni. KR náði fjögurra stiga forystu, 75-71, þegar 50 sekúndur voru til leiksloka eftir gegnumbrot hjá Prosser sem lék fantavel í kvöld. Þriggja stiga skotin vildu ekki niður hjá Val í kvöld, stóru skotin voru ekki að detta og því fagnaði KR loks 78-71 sigri.
 
Þó fjögur stig séu í boði fyrir Val þá komast þær ekki í úrslitakeppnina, KR hefur betur innbyrðis og Valur getur bara jafnað KR að stigum en ekki komist uppfyrir vesturbæinga. Góð lokarispa Vals í deildinni fékk því enda í kvöld og nýliðarnir verða að bíða næstu leiktíðar til að reyna við úrslitakeppnina. KR að sama skapi er nú í 4. sæti og úrslitakeppnin innan seilingar en áður en af henni getur orðið bíður röndóttra leikur gegn Haukum og Keflavík.
 
Punktar:
-Melissa Lechlitner tók ekki þátt í leiknum vegna meiðsla sem hún hlaut í Haukaleiknum í síðustu umferð.
-Að sama skapi var Bryndís Guðmundsdóttir enn fjarverandi í liði KR sem og Helga Einarsdóttir.
-Valur tók 20 sóknarfráköst í leiknum en þriggja stiga nýting þeirra var aðeins 9,5%
 
Heildarskor:
 
KR: Erica Prosser 28/5 fráköst/6 stoðsendingar, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 19/5 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 14, Margrét Kara Sturludóttir 12/9 fráköst, Anna María Ævarsdóttir 5/4 fráköst, Sólrún Sæmundsdóttir 0, Helga Hrund Friðriksdóttir 0, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0/6 fráköst, Kristbjörg Pálsdóttir 0, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Rannveig Ólafsdóttir 0, Perla Jóhannsdóttir 0.
 
Valur: Lacey Katrice Simpson 19/10 fráköst/5 stolnir/6 varin skot, Þórunn Bjarnadóttir 15, María Ben Erlingsdóttir 11/10 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 8/7 fráköst, Signý Hermannsdóttir 6, Kristrún Sigurjónsdóttir 6/5 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 4, Hallveig Jónsdóttir 2, Ragnheiður Benónísdóttir 0, María Björnsdóttir 0, Berglind Karen Ingvarsdóttir 0.
 
 
Mynd/ KR-ingar fögnuðu innilega í leikslok.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -