spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Grindavík fær deildarmeistaratitilinn afhentan

Leikir dagsins: Grindavík fær deildarmeistaratitilinn afhentan

Í kvöld hefst tuttugasta umferðin í Iceland Express deild karla þar sem Grindvíkingar fá afhentan deildarmeistaratitilinn að lokinni viðureign sinni gegn Snæfell. Fjölnir fær Njarðvík í heimsókn og ÍR tekur á móti Haukum í Hellinum. Að frátöldum Grindvíkingum eru hin fimm lið kvöldsins í bullandi baráttu á mismunandi stöðum í töflunni en Haukar þurfa bráðnauðsynlega á sigri að halda í baráttu sinni fyrir áframhaldandi sæti í deildinni.
Leikir kvöldsins í IEX deild karla, 19:15:
 
Grindavík – Snæfell
Fjölnir – Njarðvík
ÍR – Haukar
 
Grindavík-Snæfell
Gulir og glaðir hafa ekki að neinu sérstöku að keppa ef frá er talið að halda sér í takt og skoppa til baka eftir tap í Þorlákshöfn. Hólmarar geta hinsvegar enn komist ofar í töfluna en þá er sigur frumskilyrði í Röstinni.
 
Fjölnir-Njarðvík
Síðustu tvö tímabil hafa Fjölnismenn misst af úrslitakeppninni og eru um þessar mundir í 10. sæti. Fjölnir vann fyrri leikinn gegn Njarðvík með þriggja stiga mun í Ljónagryfjunni og sigur í kvöld gæti reynst þeim dýrmætur endi þeir jafnir Njarðvíkingum að stigum. Að sama skapi verða grænir að vinna með fjögurra stiga mun í kvöld eða meira til að hafa betur innbyrðis gegn Fjölni.
 
ÍR-Haukar
Haukar með 10 stig í fallsæti en ÍR með 16 stig í 9. sæti deildarinnar. Nú má ekkert út af bera hjá Haukum, ekkert að leggja traust sitt á að t.d. Njarðvík vinni Fjölni heldur þurfa Haukar á sigri að halda. Samkvæmt heimildum Karfan.is ætlar Haukar TV að reyna útsendingu á netinu frá Hellinum. ÍR þarf einnig á sigri að halda í baráttu sinni fyrir sæti í úrslitakeppninni og draumastaða þeirra eftir kvöldið er að sjá njarðvík tapa gegn Fjölni og þeir sjálfir leggi Hauka að velli.
 
Þá er einn leikur í 1. deild kvenna þegar Breiðablik tekur á móti Grindavík kl. 18:00 í Smáranum.
 
Fjölmennum á vellina… úrslitakeppnin er handan við hornið!
 
Fréttir
- Auglýsing -