spot_img
HomeFréttirStólarnir með tak á Þórsurum: Hairston og Tratnik fengu reisupassann

Stólarnir með tak á Þórsurum: Hairston og Tratnik fengu reisupassann

Tindastóll hafði betur gegn Þór Þorlákshöfn í kvöld, lokatölur 97-80 þannig einhverjir gætu haldið að um þægilegan sigur Stólanna hafi verið að ræða. Svo er nú ekki alveg raunin því Þórsarnir veittu öfluga mótspyrnu langt fram eftir leik og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem það fór að skilja á sundur milli liðanna.
 
 
 
Sóknarleikurinn hjá Tindastólsliðinu hefur verið ansi brösóttur í síðustu leikjum en flestir sem hafa fylgst með körfuboltanum í vetur vita þó að mikið býr í Tindastólsliðinu á góðum dögum og þess vegna var ansi forvitnilegt að vita hvaða lið myndi mæta til leiks í Tindastólsbúningunum í kvöld.
 
Svarið við því kom mjög fljótlega í ljós. Eftir jafna byrjun þá tóku Tindastólsmenn fína forystu í fyrsta leikhluta og Mo Millers og Curtis Allens sem hafa ekki átt góða leiki undanfarið voru greinilega búnir að taka sig í andlitinu og drógu vagninn af krafti. Staðan eftir fyrsta leikhluta 30-22 sem eru u.þ.b. jafnmörg stig og Tindastólsliðið hefur skorað samanlagt í síðustu þremur leikjum.  Kannski ekki alveg en greinileg batamerki á heimamönnum.
 
Þórsarar er hins vegar með öflugt lið og eins og einhver sagði þá er körfubolti íþrótt áhlaupanna og eftir að Tindastóll var mest komið 10 stigum yfir í stöðunni 35-25 þá stigu Þórsararnir aðeins á bensíngjöfina með Blagoj Janev duglegum á þeim kafla og náðu lokum að jafna í stöðunni 43-43 þegar þrjár mínútur voru eftir að öðrum leikhluta og hálfleikstölur urðu 48-47.
 
Þriðji leikhluti spilaðist síðan mest megnis eins og leikhluti númer tvö endaði. Stál í stál í meira stál. Jafnt á flestum tölum, mikil læti, þó nokkuð mikið af mistökum og ein svakaleg troðsla sem Igor Tratnik bauð upp á í tilefni dagsins. Mo Millers sem hafði fengið á sig tvær ansi ódýrar ruðningsvillur á stuttum tíma í fyrri hálfleik fékk þriðja ruðninginn dæmdan á sig um miðjan leikhlutann, fjórðu villuna allt í allt og Bárður átti engan kost annan en að bekkja manninn.
 
Eflaust hefur einhver haldið að Þórsarar myndu grípa gæsina í kjölfarið en Tindastólsmenn eru með breiðan hóp og liðin héldu áfram að vera jöfn á öllum tölum. Það var ekki fyrr en nokkrar mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta sem aðeins fór að skilja á milli liðanna. Strákar eins og Tratnik, Helgi Freyr og hrúturinn Hreinn voru að spila þrælvel á þessum kafla og á stuttum tíma voru Tindastólsmenn komnir 12 stigum yfir 88-76 þegar fimm mínútur voru eftir.  Það var þá sem sérstakasta atvik leiksins átti sér stað.
 
Benedikt þjálfari tók leikhlé og þegar Matthew Hairston hinn handleggjalangi leikmaður Þórs sem hafði reyndar átt góðan leik fram að því, ákvað að stoppa við í Tindastólshópnum og vera með læti. Hvað hann gerði nákvæmlega er ekki alveg ljóst án endursýningar en allavega lá Helgi Rafn í gólfinu eftir framgöngu Hairston. Dómarar leiksins sem voru reyndar hinum megin í húsinu virtust hins vegar vera alveg viss um hvað hefði gerst og vísuðu Hairston umsvifalaust úr húsinu.
 
Eftir leikmenn höfðu róað sig, talað sig saman og tilbúnir að hefja leik aftur þá kom mjög óvænt útspil frá dómurum leiksins sem ákváðu að senda Igor Tratnik einnig úr húsi. Fyrir hvað er líklega fáum ljóst, a.m.k ekki áhorfendum en vonandi bjóða endursýningar upp á einhverjar skýringar.
 
En öll þessi læti fóru ekki vel í Þórsarana, blaðran sprakk og leikurinn fjaraði meira og minna út. Öruggur Tindastólssigur eftir erfiða fæðingu og Tindastóll eru komnir í sæmilega stöðu fyrir úrslitakeppnina. Þó má lítið út af bregða og allt getur ennþá gerst í þessari síðustu viku deildarkeppninnar.
 
Tindastóll: Curtis Allen 25/9 fráköst, Maurice Miller 25/7 fráköst, Igor Tratnik 11/10 fráköst, Hreinn Gunnar Birgisson 9, Helgi Freyr Margeirsson 8, Friðrik Hreinsson 7/4 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 6/9 fráköst/5 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 6/8 fráköst, Páll Bárðason 0, Ingvi Rafn Ingvarsson 0, Svavar Atli Birgisson 0, Pálmi Geir Jónsson 0.
 
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 21, Blagoj Janev 20/7 fráköst, Matthew James Hairston 16/5 fráköst, Darri Hilmarsson 10, Guðmundur Jónsson 6, Baldur Þór Ragnarsson 5/6 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 2, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Emil Karel Einarsson 0.
 
 
Umfjöllun/ Björn I. Óskarsson 
Fréttir
- Auglýsing -