spot_img
HomeFréttirÖruggt hjá Keflavík í lokaumferðinni

Öruggt hjá Keflavík í lokaumferðinni

Falur Harðarson og Finnur Freyr Stefánsson hristu upp í leikskipulagi sinna liða þegar KR tók á móti Keflavík í lokaumferð Iceland Express deildar kvenna í dag. Fyrir leikinn var vitað að Keflavík myndi taka á móti deildarmeistaratitlinum í DHL-höllinni og að tímabilinu myndi í dag ljúka hjá KR sem rétt misstu af úrslitakeppninni. Yngri og óreyndari leikmenn fengu fyrir vikið að spreyta sig töluvert hjá liðunum.
Keflavík var fyrra til að láta sverfa til stáls og leiddu 9-20 þegar KR svaraði með 8-0 áhlaupi en gestirnir leiddu þó 19-22 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Í öðrum leikhluta stakk Keflavík af og unnu leikhlutann 9-22 og staðan því 28-44 í hálfleik. Níu leikmenn KR höfðu skorað í fyrri hálfleik en átta hjá Keflavík svo myndarlegur hópur beggja liða var að fá tækifæri til að sýna sig. Hrafnhildur og Hafrún voru báðar með 5 stig hjá KR í leikhléi en Ebony og Pálína voru með 9 í Keflavíkurliðinu.
 
Síðari hálfleikur var einstefna þar sem Keflvíkingar léku góða vörn, KR skoraði aðeins 12 stig í síðari hálfleik og svo fór að Keflavík lyfti deildarmeistaratitlinum í DHL-höllinni eftir öruggan 40-73 sigur á KR.
 
Deildarmeistarar Keflavíkur mæta Haukum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en í hinni viðureigninni mætast Njarðvík og Snæfell, sömu lið og léku til bikarúrslita fyrr á tímabilinu.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -