spot_img
HomeFréttirFramtíðin er klárlega hans: Viðtal við feðgana Kristinn og Ísak

Framtíðin er klárlega hans: Viðtal við feðgana Kristinn og Ísak

Stór viðburður í Þorlákshöfn í gærkvöld. Feðgar að dæma saman í fyrsta skipti í úrvalsdeild karla og strákurinn að dæma sinn fyrsta leik þar. Hvernig fannst ykkur þetta ganga ?
Ísak: Mér fannst þetta bara ganga nokkuð vel. Við erum nú búnir að dæma um 20 leiki saman á ferlinum. Þrátt fyrir að þetta hafi verið fyrsti leikurinn minn og 561. leikurinn hjá honum að þá held ég að þetta hafi bara gengið vel. Þetta var allavegana gaman og allir að spila körfubolta, hörkustemning og spennandi leikur.
 
Kristinn: Það var gaman að sjá að Valsmenn spiluðu mjög vel. Við þurftum að leggja okkur mikið fram eins og leikmennirnir og sérstaklega í 4. leikhluta þar sem leikurinn jafnaðist. Þegar að bæði lið líta til baka að þá er ekki hægt að segja að einhver stór atvik hjá okkur hafi ráðið úrslitum heldur var það frammistaða liðana sem réðu úrslitum og það er það sem maður vill.
 
Hvernig finnst þér að vera svona ungur á stóra sviðinu ?
 
Ísak: Mér finnst það bara mjög gaman. Þetta er búið að vera mjög erfitt tímabil hjá mér. Ég fór í uppskurð í haust og kom aftur inn um áramót. Þetta hálfa tímabil sem ég er búinn að vera með hefur bara gengið mjög vel. Ég er búinn að vera með þennan draum í maganum mjög lengi að dæma í úrvalsdeild en hélt að það yrði ekkert fyrr en næsta haust, þannig að það var mjög gaman að fá símhringingu núna fyrir helgi. Þetta er náttúrulega það sem ég er búinn að vera að stefna að mjög lengi og var ógeðslega gaman. Mikið adrenalín ,,kick."
 
Hvernig stóð svo guttinn sig ?
 
Kristinn: Hann stóð sig mjög vel. Nú er ég orðinn gamli kallinn en ég var einu sinni ungur dómari. Ég var 19 ára þegar að ég byrjaði í úrvalsdeild karla en hann er 291 degi yngri en ég þegar að ég dæmdi minn fyrsta leik en hann er svona 10 sinnum betri en ég var á sama tíma. Dómaraþjálfun hefur farið mikið fram og hann er búinn að vera virkur dómari í fjögur ár. Hann hefur alist upp í kringum dómara og hefur mikið forskot með það. Hérna í kvöld vorum við með tvo þjálfara sem eru miklir fagmenn og reyndust okkur mjög samstarfsfúsir. Ég er virkilega ánægður með þetta kvöld.
 
Hvernig finnst þér körfuboltinn hafa þróast þessi 24 ár sem þú hefur verið dómari í efstu deild karla ?
 
Kristinn: Síðustu 2-3 ár merki ég ekki neinar sérstakar framfarir. Tímabilið 2008-2009 var hápunktur að mínu mati. Mikill stígandi hafði verið síðustu 20 ár þar á undan en deildin líður kannski eitthvað fyrir það að okkar bestu leikmenn eru að spila í atvinnumennsku. Svo getur maður velt því fyrir sér hvort þeir erlendu leikmenn sem eru að spila hérna, og eru auðvitað mjög misjafnir, séu heilt yfir nógu góðir. Kanski spilar fjárhagur liðanna þar inní. Þó að ekki séu merkjanlegar framfariri í gæðum leikjanna þá er afar jákvætt hvað deildin er jöfn. Hérna í kvöld vorum við með lið sem var í 4. sæti og hitt í 12. sæti og hugsanlega hefði leikurinn farið á hinn veginn að liði í 12. sæti hefði unnið. Útlendingarnir gera þetta kleift. Ef við værum með einn útlending á lið að þá er minna um svona óvænta hluti. Þannig að deildin er afar jöfn og allir geta unnið alla þó svo að gæðin hafi einhvern tímann verði betri.
 
Nú kemur þú mjög ungur inn og þú ert sonur eins albesta dómara landsins fyrr og síðar. Finnst þér þú græða á því eða líður þú fyrir það ?
 
Ísak: Mér finnst ég græða á því, en auðvitað hafa komið komment „vertu ekki eins og pabbi þinn!“ og allskonar svoleiðis hlutir. Ég samt græði á þessu. Hann hefur oft spurt mig „er þetta virkilega það sem þú vilt gera?“ þannig að það er engin pressa frá honum að ég sé að dæma en honum finnst það frábært því þetta er það sem ég vil gera. Ég er búinn að fylgja honum frá því að ég var 8 ára gamall, þá var ég byrjaður að suða í honum að fá fara með. Ég þarf bara að hlusta á hann og hann allur að vilja gerður til að segja mér til. Ég þarf bara að hlusta á hann og halda áfram að taka við leiðbeiningum frá honum, því hann er með auga fyrir þessum hlutum og er sá dómari sem hefur stúderað þetta mest og er klárlega besti lærifaðirinn af þeim öllum.
 
Kristinn: Ég held að það sé mikilvægast að Ísak sé dæmdur af því hver hann er. Einhver samanburður við mig er ósanngjarn. Ísak er bara það góður og feikilega efnilegur að ég held að ætti bara að fá að vera dæmdur af eigin verkum en ekki að vera að bera hann saman við mig. Framtíðin er klárlega hans.
 
Mynd/ Karl Einar Óskarsson
Viðtal: Hákon Hjartarson  
Fréttir
- Auglýsing -