spot_img
HomeFréttirÞrenna Govens tryggði Þór þriðja sætið: Haukar féllu með sæmd (Umfjöllun)

Þrenna Govens tryggði Þór þriðja sætið: Haukar féllu með sæmd (Umfjöllun)

Þór Þ. vann Hauka í kvöld 79-85 í lokaumferð Iceland Express-deildar karla. Leikurinn var mikilvægur fyrir Þór sem var að keppast að því fá gott sæti fyrir úrslitakeppnina. Haukar voru fallnir og höfðu að engu að keppa nema nema að klára tímabilið með sæmd. Matthew Haiston var í banni hjá Þór og Chavis Holmes lék ekki með Haukum vegna meiðsla.
Haukar byrjuðu leikinn af krafti og settu fyrstu fjögur stig leiksins. Þórsarar voru ráðvilltir fyrstu sóknirnar í sínum sóknaraðgerðum en þegar fyrsta karfan kom þá fór þetta að detta hjá þeim og þeir settu tíu stig í röð á Haukana. Haukarnir spiluðu 3-2 svæði eftir skoraða körfu og olli hún Þórsurum smá vandræðum í byrjun en svo náðu þeir að finna lausnir. Þó að leikmenn Þórs voru að setja skotin sín var Benedikt Guðmundsson ekki alveg nógu sáttur með sína menn en þeir voru nokkuð mistækir. En þrátt fyrir það leiddu þeir 17-23 eftir fyrsta leikhluta en það var Emil Barja sem lokaði leikhlutanum með flautukörfu af stuttu færi.
 
Þór byrjaði annan leikhluta með miklum látum. Þeir settu fimm stig á örfáum sekúndum. Fyrst setti Blagoj Javen þriggja-stiga körfu og svo stal Darri Hilmarsson sendingu úr innkastinu og setti niður sniðskot. Haukarnir voru heillum horfnir og Þórsarar gengu á lagið. Pétur Guðmundsson, þjálfari Hauka, setti Steinar Aronsson inná og náði hann að setja nokkrar körfur fyrir Hauka og þeir rauðu fóru að minnka muninn jafnt og þétt. Haukar náðu góðu áhlaupi þegar þeir skoruðu 13 stig gegn aðeins tveimur frá gestunum og jöfnuðu leikinn 30-30 með tveimur vítaskotum frá Alik Joseph-Pauline. Þórsarar náðu að komast yfir á ný og fóru þeir Darrin Govens og Darri Hilmarsson fyrir Þórsurum. Juku þeir muninn í 34-40 en þá tók Pétur Guðmundsson leikhlé fyrir Hauka. Næstu mínútur skiptust liðin á körfum og var munurinn sjö stig í hálfleik 41-48 og aftur var það Emil Barja sem lokaði leikhlutanum en að þessu sinni var það næstum því flautukarfa sem hann setti í blálokin.
 
Varnarleikur beggja lið var ekkert sérstakur en Christopher Smith olli miklum usla í miðju varnar heimamanna en hann var kominn með fjögur varin skot í hálfleik.
 
Darri Hilmarsson var frábær fyrir Þór í fyrri hálfleik og var kominn með 17 stig og Darrin Govens setti 12. Hjá Haukum var Christopher Smith með 12 stig og Alik Joseph-Pauline var með 10.
 
Þriðji leikhluti var æsispennandi þar sem bæði lið sýndu flotta takta. Haukur Óskarsson skoraði fyrstu fjögur stig leikhlutans fyrir Hauka og minnkaði muninn í aðeins þrjú stig 45-48. Guðmundur Jónsson batt enda á stigaþurrð Þórsara í seinni hálfleik þegar hann setti niður tvö góð stig. Emil Barja jafnaði svo leikinn með þriggja-stiga skoti 50-50 eftir að Helgi Björn Einarsson setti niður sniðskot í sókninni á undan fyrir Hauka. Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, tók leikhlé og fór yfir málin með sínum mönnum en hann var allt annað en sáttur með frammistöðu þeirra á þessum tímapunkti. Fyrstu fjögur stig leiksins eftir leikhléið voru Hauka og Benedikt Guðmundsson tók léttan stríðsdans á hliðarlínunni við að kalla á sína menn. Þá kom að kafla Darrin Govens en hann minnkaði muninn fyrir Þórsara og kom þeim á bragðið en hann skoraði næstu sjö stig Þórsara og staðan orin 56-57 og Þór komið yfir á ný. Næsta karfa kom frá Baldri Ragnarssyni sem var nýkominn inná. Haukur Óskarsson jafnar leikinn með þristi 59-59. Eitthvað mikið virtist ganga á inní teig Þórsara þegar Haukur kom sér í skotfærið og Benedikt Guðmundsson uppskar tæknivillu við að kvarta. Emil Barja setti niður annað vítið og Haukar komnir yfir á ný 60-59. Guðmundur Jónsson lokaði leikhlutanum með þrist og staðan 64-68.
 
 
Mikið fjör var í upphafi fjórða leikhluta og liðin skiptust á að negla niður körfum. Þórsarar voru þó sterkari og náðu að keyra muninn uppí níu stig eftir þrjár mínútur og leiddu 70-79. Haukar tóku þá leikhlé til að ná vopnum sínum aftur. Haukar náðu ekki almennilegu áhlaupi á Þórsara fyrr en í lokin en þá var það aðeins of seint. Með smá heppni hefðu Haukar getað fengið tækifæri til að jafna. Lokatölur 79-85.
 
Darrin Govens var stigahæstur hjá Þór með 26 stig en hann var með myndarlega þrennu. Hann tók einnig 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Darri Hilmarsson var mjög sterkkur og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.
 
Hjá Haukum var Christopher Smith með 20 stig og átta varin skot og sjö fráköst. Steinar Aronsson var með flotta innkomu af bekknum en hann setti 13 stig fyrir Hauka.
 
Þórsarar unnu vel úr sínum málum í erfiðum leik og líta ágætlega út fyrir úrslitakeppnina. Á meðan eru heimamenn að fara spila í 1. deild á næsta tímabili eins og stuðningsmenn Þórs bentu ítrekað á í kvöld en með smá heppni hefðu Haukar getað haldið sér uppi.
 
Þór mætir Snæfelli í úrslitakeppninni.
 
 
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -