spot_img
HomeFréttirSkallagrímur tók forystuna: ,,Borgarnes er happiness

Skallagrímur tók forystuna: ,,Borgarnes er happiness

Íþróttamiðstöðin í Borgarnesi var troðfull 45 mínútum fyrir leik! Helena Hrund Ingimundardóttir var mætt fyrir hönd Karfan.is á vesturlandsslag Skallagríms og ÍA en Borgnesingar tóku 1-0 forystu í kvöld í rimmu liðanna um laust sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð, lokatölur 91-82 Skallagrím í vil.
Leikurinn var frekar jafn þó Skallagrímur hafi verið skrefinu á undan Skagamönnum allan tímann. Spennustigið hjá báðum liðum var greinilega mjög hátt fyrir leikinn. Á Fyrstu fimm mínútum leiksins var mikið um mistök, leikurinn mjög hraður og lítið sem gekk upp hjá báðum liðum. Lorenzo Lee McClelland var allt í öllu fyrir gestina og gerðu leikmenn Skallagríms lítið annað í vörninni en að horfa á eftir honum skora körfu eftir körfu, hver annari auðveldari. Leikhlutinn endaði 19-18.
 
Þjálfari Skagamanna Terrence Watson fékk dæmdan á sig ruðning í byrjun annars leikhluta. Það blés lífi í Skallagrímsmenn og náðu þeir ágætis forskoti í þessum leikhluta, Davíð Guðmundsson skoraði tvær þriggjastigakörfur með stuttu millibili. Skallagrímsmenn voru ennþá hálf sofandi í vörn og áttu í stökustu vandræðum með fráköst allan leikhlutann.
Hálfleikstölur voru 50-40.
 
Maggi Mix tók lagið í hálfleik af miklum myndarbrag með glænýrri rímu um dásemd þeirra Borgnesinga: ,,Borgarness er happiness"
 
Skagamenn komu ákveðnir til leiks í þriðja leikhluta, þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu þeir minnkað munin niður í 2 stig og staðan orðin 56-54. Sigmar Egilsson var eins og rokkstjarna í vörninni í þessum leikhluta, með ágætisvörn og skynsemi á köflum í sókninni náðu Skallagrímsmenn 11 stiga forskoti og endaði leikhlutinn 73-62.
 
Skagamenn, með Áskel Jónsson í fararbroddi áttu mjög góðan kafla í byrjun fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í 4 stig. Egill fékk fimmtu villuna sína þegar 2 mín voru eftir eins og Dagur Þórisson leikmaður ÍA. Leikurinn var jafn og spennandi. Þegar tæp mínúta var eftir af leiknum var staðan 83-79. David Sumner tók sig til og dansaði Svanavatnið yfir leikmönnum ÍA, troðsla með miklum tilþrifum sem varð til þess að áhorfendur trylltust ásamt því að leikmenn Skallagríms bættu í. Brotið var á Lloyd Harrison sem setti bæði vítin sín ofaní. Áskell Jónsson setti niður þriggja stiga skot og Skagamenn taka leikhlé. Lloyd Harrison endurtók leikinn á vítalínunni og staðan orðin 89-82, Darrell Flake skoraði svo síðustu 2 stig leiksins af vítalínunni og voru lokatölur 91-82.
 
Liðin mætasta svo aftur á sunnudag á Akranesi kl. 19:15, sigur hjá Skallagrím tryggir þeim sæti í úrvalsdeild en sigur hjá ÍA tryggir oddaleik í Borgarnesi næsta þriðjudag.
 
 
Skallagrímur: Lloyd Harrison 32/6 fráköst/6 stoðsendingar, Danny Rashad Sumner 15/7 fráköst/4 varin skot, Darrell Flake 13/11 fráköst/10 stoðsendingar, Hörður Helgi Hreiðarsson 10/5 fráköst, Egill Egilsson 8, Davíð Guðmundsson 6, Sigmar Egilsson 5/5 fráköst, Elvar Þór Sigurjónsson 2, Óðinn Guðmundsson 0, Elfar Már Ólafsson 0, Davíð Ásgeirsson 0, Birgir Þór Sverrisson 0.
 
ÍA: Lorenzo Lee McClelland 35/8 fráköst/6 stoðsendingar, Terrence Watson 15/16 fráköst, Áskell Jónsson 12/4 fráköst, Hörður Kristján Nikulásson 10/6 fráköst, Dagur Þórisson 7, Sigurður Rúnar Sigurðsson 2/4 fráköst, Trausti Freyr Jónsson 1, Birkir Guðjónsson 0, Böðvar Sigurvin Björnsson 0, Oddur Helgi Óskarsson 0, Ómar Örn Helgason 0, Örn Arnarson 0.
 
Umfjöllun/ Helena Hrund  
Fréttir
- Auglýsing -